Kallar eftir afsögn Cuomos vegna ásakana um áreitni

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur kallað eftir því að Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, segi af sér í kjölfar óháðrar rannsóknar á háttsemi ríkisstjórans. Niðurstaða rannsóknarinnar er að Cuomo hafi kynferðislega áreitt fleiri en eina konu. 

Í skýrsl­unni, sem var gerð op­in­ber í gær, eru ná­kvæm­ar lýs­ing­ar ell­efu kvenna þar sem þær lýsa ít­rekaðri of­beld­is­fullri hegðun Cu­omos og sam­starfs­fólks hans.

Biden fordæmdi hegðun Cuomos aðeins fáeinum klukkustundum eftir að dómsmálaráðherra New York-ríkis, Letitia James, kynnti rannsóknina. Við það tilefni sagði hún að Cuomo hefði brotið bæði alríkis- og ríkislög. 

Cuomo þvertók í gær fyrir það að hafa komið við nokkurn mann á óviðeigandi hátt og hét því að sitja sem fastast í embætti. 

Cuomo gæti nú staðið frammi fyrir hvoru tveggja sakamáli og málsmeðferð vegna embættisbrota. 

Andrew Cuomo.
Andrew Cuomo. AFP

„Ég held að hann ætti að segja af sér,“ sagði Biden við blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið í gærkvöldi. „Ég skil það þannig að ríkisþingið gæti ákveðið að hefja málsmeðferð vegna embættisbrota. Án þess að ég viti það fyrir víst, ég hef ekki lesið allt um þetta,“ sagði forsetinn. 

Rannsókn dómsmálaráðherra New York var fyrirskipuð á síðasta ári eftir að nokkrar konur stigu fram og sökuðu ríkisstjórann um kynferðislega áreitni. Yfir fimm mánaða tímabil ræddu rannsakendur við nærri 200 manns, m.a. starfsfólk Cuomos og einhverjar þær kvenna sem höfðu haft ásakanirnar uppi. Tugþúsundir skjala, ljósmynda og texta voru skoðaðar vegna rannsóknarinnar. 

Cuomo hefur m.a. verið sakaður um að kyssa konu án samþykkis hennar, að spyrja óviðeigandi spurningar út í einkalíf eins fórnarlamba hans, m.a. hvort viðkomandi hefði áhuga á að stunda kynlíf með eldri manni, og að þukla á brjósti einnar þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert