Lést 42 ára, hraustur en óbólusettur

Enskur heilbrigðisstarfsmaður heldur á sprautu með bóluefni við Covid-19.
Enskur heilbrigðisstarfsmaður heldur á sprautu með bóluefni við Covid-19. AFP

42 ára Englendingur sem var í góðu formi og lifði heilbrigðu lífi lést af völdum Covid-19 eftir að hafa hafnað bólusetningu.

Tvíburasystir Johns Eyers frá borginni Southport lýsti honum sem „hraustustu og heilbrigðustu manneskjunni sem ég veit um“.

Hún bætti við að bróðir hennar hefði gengið upp fjöll í Wales og tjaldað í óbyggðum fjórum vikum áður en hann lést, að því er Guardian greindi frá.

Hefði ekki átt að gerast

Eftir að hann smitaðist af kórónuveirunni var hann fluttur á gjörgæslu. Hann sagði sérfræðilækni sínum áður en hann var settur í öndunarvél að hann óskaði þess að hann hefði látið bólusetja sig.

Systir hans, Jenny McCann, sagði dauða bróður síns „harmleik“.

„Hann hélt að það skipti engu máli þótt hann smitaðist af Covid-19. Hann hélt að hann myndi fá væg einkenni. Hann vildi ekki fá bóluefni í líkama sinn,“ sagði McCann og bætti við á Twitter að allt hefði verið reynt til að halda honum á lífi á sjúkrahúsinu.

„Þetta hefði ekki átt að gerast. Hann skilur eftir sig móður, föður og systur (mig) og 19 ára dóttur. Börnin mín tvö hafa misst skemmtilega frændann sinn. Frændann sem vildi alltaf leika við þau.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert