Svartbjörn varð konu að bana

Svartbjörn.
Svartbjörn. AFP

26 ára gömul kona sem starfaði við gróðursetningu trjáa í Albertafylki í Kanada var drepin af svartbirni á laugardaginn var að sögn lögreglu. Árásir svartbjarna, eins stærsta rándýrs Kanada, eru afar fátíðar þar í landi. The Guardian greinir frá. 

Að sögn vitna réðst fullorðinn svartbjörn á konuna á afskekktu svæði í Norðvestur-Albertafylki. Samstarfsfélagi konunnar, sem varð vitni að árásinni, aðstoðaði við að hræða björninn í burtu áður en hún kallaði á hjálp.

Flogið var með konuna með þyrlu á sjúkrahús en hún var úrskurðuð látin við komuna þangað.

Þrátt fyrir að svartbirnir séu margir á svæðinu og menn rekist á þá í æ meiri mæli eru banvænar árásir af völdum dýranna sérlega fátíðar á svæðinu. Frá árinu 1958 hefur einungis verið tilkynnt um fimm banvænar árásir af völdum svartbjarna í Albertafylki.

Myndavélum og gildrum hefur verið komið fyrir á svæðinu svo hægt sé að hafa uppi á birninum. Einnig hefur verið tekið sýni af fötum fórnarlambsins svo hægt sé að greina DNA bjarnarins.

Þrír fullorðnir svartbirnir hafa fundist á svæðinu og beðið er niðurstöðu DNA-prófs. Ef það fæst staðfest að einn bjarnanna ber ábyrgð á árásinni er líklegt að dýrið verði drepið nema það sannist að árásin hafi verið framin í varnarskyni.

mbl.is