Vistuðu rangan mann á geðsjúkrahúsi í tvö ár

Frá Havaí.
Frá Havaí. AFP

Yfirvöld á Havaí handtóku Joshua Spriestersbach fyrir glæp sem hann framdi ekki og sendu hann á geðsjúkrahús þar sem hann var neyddur til að taka geðlyf.

Þegar upp komst um mistökin rúmum tveimur árum síðar, í janúar í fyrra, reyndu þau að hylja málið og slepptu manninum.

Samtökin Hawaii Innocence Project, sem hafa þann tilgang að afhjúpa og leiðrétta ranga dóma, báðu á mánudag dómstóla að laga handtökuskýrslu Spriestersbachs og sakavottorð hans.

Þetta kemur fram á vef Anchorage Daily News.

Atburðarásin hófst þegar Spriestersbach, sem var heimilislaus og svangur, beið í röð eftir mat í skýli fyrir heimilislausa á Havaí árið 2017. Mikill hiti var þennan dag og ákvað hann að taka sér lúr á gangstéttinni á meðan hann beið í röðinni.

Merktur með dulnefni

Hann vaknaði svo við það þegar lögreglumaður var tekinn til við að handtaka hann. Spriestersbach hélt að hann væri handtekinn fyrir að sofa á gangstéttinni, sem er ólöglegt í ríkinu.

Lögreglumaðurinn fór aftur á móti mannavillt og hélt að hann væri að handtaka mann frá Alaska að nafni Thomas Castleberry, sem var eftirlýstur eftir að hafa brotið skilorð árið 2006.

Óljóst er hvernig þetta kom til en mennirnir tveir höfðu aldrei hist. Spriestersbach hafði að minnsta kosti einhvern veginn verið merktur hjá lögreglunni með dulnefninu Castleberry, þótt hann hefði aldrei verið kallaður það, að því er fram kemur í skjölum Hawaii Innocence Project.

Sagðist vera hann sjálfur og talinn geðveikur

Lögfræðingar Spriestersbachs færðu rök fyrir því að hægt hefði verið að forðast þennan misskilning einungis með því að bera saman myndir og fingraför af mönnunum tveimur.

Þess í stað, þegar Spriestersbach lýsti yfir sakleysi sínu, var hann talinn haldinn ranghugmyndum og lagður inn á geðsjúkrahús þar sem hann var settur á sterk lyf.

Enginn trúði Spriestersbach, ekki einu sinni hans eigin lögfræðingar, fyrr en starfsmaður spítalans loks hlustaði á hann. Starfsmaður spítalans bað rannsóknarlögreglumann að skoða fingraför Spriestersbachs og myndir.

Hann komst að því að hinn raunverulegi Castleberry hefði verið handtekinn árið 2016 og sat inni í fangelsi í Alaska. Spriestersbach var þá búinn að vera tvö ár og átta mánuði á spítalanum.

mbl.is