Amman varaði hana við því að koma heim

Krystina Timanovskaya á blaðamannafundi í Varsjá í dag.
Krystina Timanovskaya á blaðamannafundi í Varsjá í dag. AFP

Hvítrússneski spretthlauparinn Krystina Timanovskaya, sem neitaði að fljúga fyrr frá Ólympíuleikunum en áætlað var, segir ömmu sína hafa varað sig við því að snúa heim þar sem það væri ekki öruggt.

Timanovskaya sagði fréttastofu BBC að hún hefði verið á leiðinni á flugvöllinn þegar amma hennar hringdi og sagði henni að koma ekki aftur til Hvíta-Rússlands. Timanovskaya dvelur nú í Póllandi þar sem hún hefur fengið landvistarleyfi á grundvelli mannréttinda.

Hvíta-Rússland segir hana hafa verið fjarlægða úr liðinu vegna andlegs ástands hennar en því hefur Timanovskaya neitað.

Timanovskayu var sagt að fara heim eftir að hún gagnrýndi á samfélagsmiðlum að hafa verið skráð í 4x400 metra boðhlaup með stuttum fyrirvara. Myndbandið á samfélagsmiðlum leiddi til þess að hún var gagnrýnd af fjölmiðlum í Hvíta-Rússlandi.

Að sögn Timanovskayu komu tveir þjálfarar í herbergið til hennar og sögðu henni að hún skyldi pakka saman undir eins. Henni var sagt að segja að hún hefði slasast.

Hafði áhyggjur af fréttaflutningi

Þá mun amman hafa hringt í hana þar sem hún hafði áhyggjur af fréttaflutningi um Timanoskayu í Hvíta-Rússlandi.

„Ég trúði því ekki að amma mín væri að segja mér að koma ekki aftur heim, en ég spurði „ertu viss“ og hún sagði „já ég er viss. Ekki koma aftur,“ sagði Timanovskaya og sagði það ástæðuna fyrir því að hún leitaði til lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert