Leyfi hvítrússneskra þjálfara afturkallað

Krystsina Tsimanouskaya á blaðamannafundi í Pólladi í gær.
Krystsina Tsimanouskaya á blaðamannafundi í Pólladi í gær. AFP

Tveir hvítrússneskir þjálfarar hafa verið sviptir leyfi til þess að þjálfa á Ólympíuleikum eftir að hafa verið sakaðir um að hafa reynt að þvinga hvítrússnesku íþróttakonuna Krystinu Timanovskayu til þess að yfirgefa leikana í Tókýó. 

BBC greinir frá. 

Alþjóðaólympíunefndin hefur staðfest að þjálfararnir Artur Shimak og Yury Maisevich hafi yfirgefið ólympíuþorpið og að rannsókn á málinu standi yfir. 

Mál Krystinu Timanovskayu hefur vakið heimsathygli eftir að hún neitaði að fljúga heim samkvæmt fyrirskipunum þjálfara sinna og óskaði eftir aðstoð lögreglu og alþjóðaólympíunefndarinnar vegna þvingunarinnar. 

Hún er nú stödd í Póllandi, þar sem hún hefur fengið landvistarleyfi af mannúðarásæðum. 

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hafa gefið þær skýringar að Timanovskaya hafi verið fjarlægð úr liði Hvíta-Rússlands vegna andlegra veikinda. Hin 24 ára Timanovskaya segir það fjarri sanni og segir ástæðum augljósa; að hún hafi gagnrýnt þjálfara sína á instagramreikningi sínum.

Fá að svara fyrir sig

Í yfirlýsinu alþjóðlegu ólympíunefndarinnar segir að leyfi þjálfaranna tveggja hafi verið afturkallað sem varúðarráðstöfun gagnvart öðrum keppendum Hvíta-Rússlands sem enn eru í ólympíuþorpinu.

Þá kom fram að siða- og rannsóknarnefnd hafi verið sett á laggirnar til að rannsaka meint brot Hvíta-Rússlands og að báðir þjálfarar myndu fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. 

Mál Timanovskayu hefur enn og aftur varpað kastljósinu á stjórnunarhætti Hvíta-Rússlands undir stjórn Alexanders Lúkasjenkós sem hefur verið við völd frá árinu 1994. 

Á síðasta ári brutust úr fjöldamótmæli sem stóðu í nokkrar vikur eftir forsetakosningar sem Vesturlönd töldu ósanngjarnar eða ótrúverðugar.  

Sjá má viðtal fréttastofu BBC við Timanovskayu hér: 

mbl.is