Fimm héraðshöfuðborgir á valdi talíbana

Afganski herinn er ráðalaus gegn árásum talíbana.
Afganski herinn er ráðalaus gegn árásum talíbana. AFP

Talíbanar komust yfir tvær héraðshöfuðborgir í Afganistan til viðbótar í dag, sunnudag. Í morgun komust þeir yfir borgina Kunduz sem var þriðja borgin sem þeir höfðu þá sölsað undir sig, en borgirnar Sar-e-Pul og Taloqan féllu nokkrum klukkustundum seinna. Um helgina hafa því talíbanar sölsað undir sig fimm héraðsborgir.

Í Afganistan eru 34 héraðsborgir. Talíbanar hafa í sumar unnið mikla landvinninga í fámennari byggðum Afganistans og fyrir helgi hófu þeir sókn á héraðsborgirnar.  

Kunduz er gríðarlega mikilvæg borg hernaðarlega séð fyrir talíbana en borgin liggur nálægt landamærum Tadsjíkistans. Mikil verslun og umferð fer í gegnum borgina en 374 þúsund manns búa þar.

Stjórnvöld ráðalaus

Bandaríkin hafa dregið mikið af herliði sínu til baka frá Afganistan undanfarna mánuði og eftir nokkrar vikur er stefnt að því að allt herlið Bandaríkjanna sem og annarra ríkja verði farið frá landinu. 

Bandaríkjaher hefur varpað sprengjum á mikilvæg hernaðarsvæði talíbana undanfarna daga en sprengjurnar hafa ekki dregið úr árásum.

Stjórnvöld í Afganistan eru sögð ráðalaus og herlið landsins uppgefið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert