Fjölskylda fannst látin og fógetinn stendur á gati

John Gerris, Ellen Chung og dóttir þeirra, Muji.
John Gerris, Ellen Chung og dóttir þeirra, Muji. Ljósmynd/Rosanna Heaslet

Fógetaembættið í Mariposa-sýslu í Kaliforníu stendur á gati eftir að fjölskylda fannst látin ásamt hundi sínum á fáfarinni gönguleið. Líkamsleifar John Gerris, konu hans, Ellen Chungs, eins árs dóttur þeirra, Muji, og hunds þeirra urðu nývegið á vegi annarra göngumanna.

Fjölskylduvinur þeirra tilkynnti um hvarf þeirra á mánudag.

„Þetta eru mjög óvenjulegar og einstakar kringumstæðir,“ er haft eftir Kristie Mitchell, talskonu fógetans í Moriposa-sýslu, í umfjöllun dagblaðsins San Francisco Chronicle.

„Það eru engin merki um banamein þeirra, engin augljós dánarorsök, ekkert sjálfsmorðsbréf. Þau voru úti í miðri auðn í þjóðgarði á göngu.“

Gaseitrun mögulegt banamein

Rannsóknarlögregla telur mögulegt að einhvers konar eiturefni hafi orðið þeim að bana, eitthvað gas úr nærliggjandi námu eða þá eitraðir þörungar. Svæðið allt er nú girt af sem hættu- og spilliefnasvæði á meðan rannsókn málsins stendur yfir.

Svæðið var þekkt á 19. öld fyrir gullgröft að því er fram kemur í skjölum frá samtökum sagnfræðinga sem sérhæfa sig í sögu svæðisins.

Fjölskyldunni er lýst sem mjög jarðbundinni og vel liðinni, góðu fólki sem stundaði útivist og tók þátt í félagslífinu í Mariposa-sýslu.

„Málið er nú til rannsóknar réttarmeinafræðings,“ segir áðurnefnd Kristie Mitchell og bætir við: „Við höfum engin svör. Þetta er klárlega stórundarlegt.“

mbl.is