Merkel bað Pútín um að náða Alexei Navalní

Vladimír Pútín og Angela Merkel í Kreml í dag.
Vladimír Pútín og Angela Merkel í Kreml í dag. AFP

Angela Merkel kanslari Þýslands heimsótti Vladimir Pútín forseta Rússlands í Kreml í dag. Þetta er síðasta heimsókn Merkel til Moskvu áður en hún stígur til hliðar sem kanslari. Þau héldu sameiginlegan blaðamannafund eftir fund þeirra þar sem blaðamenn spurðu leiðtoganna út í helstu málefni. 

Þýskur blaðamaður spurði þau út í fangelsun Alexei Navalní, fyrrum forsetaframbjóðanda og helsta gagnrýnanda Pútíns. Forsetinnn sagði Navalní ekki sitja í fangelsi vegna framgangs hans í stjórnmálum. Navalní afplánar nú dóm fyrir brot gegn skilorði sem má rekja til peningaþvættiskæru á hendur honum frá 2014. 

Rússland komið með nóg af byltingum

Pútín segir það mikilvægt að virða sjálfstæði dómstóla og sagðist ekki ætla að blanda sér inn í einstök mál. Allir Rússar njóti réttar til þess að taka fullan þátt í stjórnmálastarfi en hann bætir við: „Rússland gekk í gegnum nógu margar byltingar á 20. öld, við höfum ekki áhuga á fleiri slíkum á þessari öld heldur erum við að leitast eftir stöðugleika.“

Angela Merkel sagði við fjölmiðla að hún hefði beðið Pútín um að leysa Navalní úr haldi en hann hefur nú setið inni í heilt ár upp á dag.

Virða þurfi sjálfsákvörðunarrétt þjóða

Russia Today spurði út í ástandið í Afganistan. Pútín sagði marga nú vera að átta sig á því að ríki geti ekki þröngvað sínum siðum og venjum yfir á aðrar þjóðir. Þetta sé helsta lexían úr innrásinni í Afganistan. Hann bendlar þessa háttsemi sérstaklega við vestrænar þjóðir.

„Hvort sem þjóðunum líki eitthvað eða ekki verður að veita fólkinu sjálfstæði til þess að móta eigin framtíð. Hvort sem fólkið vill lýðræði og óháð áliti þínu á lýðræði. Það verður að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna. Það er það sem innrásin í Afganistan kennir okkur. Við verðum að stuðla að stöðugleika í Afganistan og opna á samskipti við leiðtoga þar.“

Pútín sagði enn fremur það vera meginverkefni alþjóðasamfélagsins vera að bægja Afganistan frá hruni og passa það að hryðjuverkamenn komist ekki til nágrannalanda í gervi flóttamanna.

Minnti á uppruna stríðsins

Merkel minnti á það að innrásin hafi hafist í árásunum á tvíburaturnanna. Einhverjar jákvæðar afleiðingar hafa komið upp úr innrásinni og stríðinu gegn hryðjuverkum:

„Við sáum að konur og ungar stúlkur voru mjög ánægðar að komast aftur í skóla. Núna þegar það á að taka það af þeim eru þær vonsviknar. Núna þegar talíbanar eru aftur komnir við völd og með meira fylgi þurfum við að halda áfram að reyna að ræða við hreyfinguna og bjarga þeim sem bjarga þarf,“ sagði Merkel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert