Bólusetningarvélmenni lítur dagsins ljós

Frá bólusetningu í Bandaríkjunum með bóluefni AstraZeneca.
Frá bólusetningu í Bandaríkjunum með bóluefni AstraZeneca. AFP

Vísindamenn í Taílandi hafa þróað einskonar bólusetningarvélmenni sem getur dregið bóluefnaskammta úr bóluefnaglösum á skilvirkan og öruggan hátt. Á fjórum mínútum getur vélmennið, sem hefur fengið nafnið AutoVacc, dregið 12 skammta af bóluefni AstraZeneca úr hverju bóluefnaglasi. 

Vélmennið er hannað af vísindamönnum í Chulongkorn háskólanum en vélmennið hefur verið í notkun þar síðan á mánudag. 

Því er ætlað að létta álagi af heilbrigðisstarfsfólki sem sinnir bólusetningum. 

Vísindamennirnir segja að vélmennið geti dregið um 20% fleiri skammta úr hverju bóluefnaglasi en mannlegur starfskraftur. Vélmennið hefur þó einungis spreytt sig á bóluefni AstraZeneca.

„Vélmennið getur dregið 12 skammta úr hverju glasi í stað 10,“ segir Juthamas Ratanavaraporn, sem leiðir teymið sem skapaði vélmennið.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert