Kína leynir upplýsingum um uppruna veirunnar

„Enn þann dag í dag heldur Kína áfram að hafna …
„Enn þann dag í dag heldur Kína áfram að hafna ákalli um gegnsæi og heldur eftir upplýsingum, jafnvel þó að fjöldi látinna af völdum faraldursins hækkar,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi í dag að yfirvöld í Kína leyndu „mikilvægum upplýsingum“ um uppruna kórónuveirunnar eftir að bandaríska leyniþjónustan sagðist ekki trúa því að veiran hefði orðið til sem sýklavopn. Óljóst er þó hvort að veirunni hafi verið leikið af tilraunastofu.

Yfirvöld í Bandaríkjunum telja að embættismenn í Kína hafi ekki vitað af veirunni áður en faraldurinn braust út samkvæmt skýrslu leyniþjónustunnar.

Heldur áfram að þrýsta á Kína

„Mikilvægar upplýsingar um uppruna heimsfaraldursins eru til í Alþýðulýðveldinu Kína. Yfirvöld í Kína hafa unnið að því að koma í veg fyrir að alþjóðlegir rannsakendur og aðrir fái aðgang að þessum upplýsingum,“ sagði Biden á fundinum.

„Enn þann dag í dag heldur Kína áfram að hafna ákalli um gegnsæi og heldur eftir upplýsingum, jafnvel þó að fjöldi látinna af völdum faraldursins hækkar.“

Biden segist ætla halda áfram að vinna með bandamönnum til þess að þrýsta á Peking og óska eftir samstarfi þeirra við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina.

„Við þurfum að fá fullt gagnsæi á hvað olli þessum alheims harmleik,“ sagði Biden.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert