Morðingi Kennedys fær reynslulausn

Sirhan Sirhan, meintur morðingi Roberts F. Kennedy, er nú 77 …
Sirhan Sirhan, meintur morðingi Roberts F. Kennedy, er nú 77 ára gamall og hefur fengið reynslulausn. AFP

Sirhan Sirhan, maðurinn sem sakfelldur var fyrir morðið á Robert F. Kennedy árið 1968 fékk reynslulausn í gær, föstudag. Þetta var í 16. sinn sem Sirhan sótti um reynslulausn, en beiðni hans hafði alltaf verið hafnað. 

Kennedy var að sækjast eftir útnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 1968. Hafði Kennedy orðið hlutskarpastur í forkosningum flokksins í Kalíforníu þegar hann var skotinn í eldhúsi Ambassador-hótelsins í Los Angeles aðfaranótt 5. júní 1968. 

Sirhan Sirhan, innflytjandi frá Palestínu, var fljótlega handtekinn fyrir morðið, og játaði hann sök sína. Hlaut hann dauðadóm árið 1969, en þeim dómi var síðar breytt í lífstíðarfangelsi. 

Ákvörðun nefndarinnar um reynslulausn þýðir ekki að Sirhan sé nú laus allra mála, heldur þarf að endurskoða hana að þremur mánuðum liðnum áður en Gavin Newsom, ríkisstjóri Kalíforníu tekur ákvörðun um hvort að reynslulausnin verði varanleg. 

Efasemdir um sekt Sirhans 

Lengi hafa verið uppi efasemdir um það hvort að Sirhan hafi verið sá sem skaut Kennedy, þar sem sjónarvottar segja að hann hafi staðið fyrir framan Kennedy, en krufningarskýrslur segja að hann hafi verið skotinn aftan frá. 

Meðal þeirra sem töluðu fyrir reynslulausn Sirhans var Douglas, yngsti sonur Kennedys, en auk hans sendi Robert F. Kennedy yngri einnig nefndinni bréf þar sem hann sagðist styðja það að Sirhan fengi frelsi á ný. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert