Norðmenn fresta afléttingum

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Yfirvöld í Noregi ætla að fresta afléttingum á samkomutakmörkunum, en smittíðni er nú með því hæsta sem hún hefur verið í landinu vegna Delta-afbrigðisins.

Byrjað var að aflétta takmörkunum í sumar eftir að fjöldi bólusettra hækkaði og var áætlað að öllum takmörkunum yrði aflétt í júlí. 

„Frekari afléttingar gætu leitt til hættu á enn meiri útbreiðslu. Við viljum ekki taka þá áhættu þegar svo stutt er í að allir fullorðnir séu búnir að fá boð í bólusetningu,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, á blaðamannafundi í dag. 

Solberg vonast eftir að lífið verði aftur farið að ganga sinn vanagang í Noregi í lok september þegar áætlað er að 90% þjóðarinnar verði fullbólusett.

Nú eru um 72% Norðmanna fullbólusett en 89% hafa fengið fyrri skammt. Bólusetning á börnum á aldrinum 12 til 15 ára er nú einnig  að hefjast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert