Einstakir gullgripir fundnir í Danmörku

Gripirnir eru úr gulli og frá 6. öld.
Gripirnir eru úr gulli og frá 6. öld. Ljósmynd/Vejle-safnið

Fornleifaáhugamaður í Danmörku fann nýverið 22 gullgripi frá sjöttu öld, sem gætu gefið nýjar upplýsingar um þjóðir í landinu fyrir víkingaöld.

Frá þessu greinir talsmaður Vejle-safnsins, sem mun geyma fornleifarnar. Fjársjóðurinn verður til sýnis í safninu frá og með febrúar á næsta ári.

Sumir gripanna eru með rúnaletri og áletrunum sem geta vísað til valdamanna þess tíma. Þá eru einnig á gripunum rúnir sem vísa til norrænnar goðafræði, segir Mads Ravn, forstöðumaður rannsókna við Vejle-safnið, við fréttastofu AFP.

Einn gripanna vísar til rómverska keisarans Konstantínusar frá upphafi 4. aldar.

Einn gripanna vísar til Konstantínusar keisara.
Einn gripanna vísar til Konstantínusar keisara. Ljósmynd/Vejle-safnið

Táknin merkilegri en magnið

„Það eru táknin á gripunum sem gera þá einstaka fremur en magnið sem fannst,“ segir Ravn, en gripirnir eru um eitt kíló að þyngd.  

Samkvæmt fyrstu athugunum gæti fjársjóðurinn hafa verið grafinn sem fórn til guðanna á ófriðartíma þegar loftslagið í norðurhluta Evrópu kólnaði verulega eftir eldgos á Íslandi árið 536, sem sendi öskuský til himins er hafði áhrif á lofthita í Norður-Evrópu. 

„Þeir hafa mörg tákn, sum þeirra hafa ekki sést áður, sem gera okkur kleift að auka þekkingu okkar á fólki á þessu tímabili,“ segir Ravn.

Vagga fyrir konunga á víkingaöld

Víkingaöldin er talin hafa staðið frá seint á áttundu öld og fram á 11. öld. Heimildir um samfélag norrænna manna eru rýrar fyrir þann tíma. 

Fjársjóðurinn fannst nálægt Jelling í suðvesturhluta Danmerkur, sem sagnfræðingar segja að hafi orðið að vöggu fyrir konunga á víkingaöld. Áhugamaðurinn fann sjóðinn með málmleitartæki fyrir um sex mánuðum, en beðið var með að tilkynna fundinn þar til nú.

Ítarlegri umfjöllun danska ríkisútvarpsins má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert