„Full hefndartilfinningu, hatri, reiði og ótta“

Minnisvarði var reistur í Hollandi til minningar um þá sem …
Minnisvarði var reistur í Hollandi til minningar um þá sem létust í slysinu. AFP

Fjölskyldur þeirra 298 sem létust þegar farþegaþota Malaysia Air­lines, flug MH17, var skotin niður árið 2014 yfir Úkraínu, krefjast réttlætis frá Rússlandi. Réttarhöld standa nú yfir í Hollandi í máli þeirra fjögurra sem eru ákærðir fyrir að bera ábyrgð á ódæðinu, þar af eru þrír Rússar.

Vélin var á leið frá Amster­dam til Kuala Lump­ur í júlí 2014 og voru því tveir þriðju hinna látnu Hollendingar. 

Fólk sem sem missti ættingja í slysinu segjast ekki geta kvatt ástvini sína fyrr en þeir sem bera ábyrgð verði sóttir til saka. 

Alþjóðlegt teymi rann­sak­enda kom­st að þeirri niður­stöðu að Rúss­arn­ir Igor Girk­in, Ser­gey Dubin­skíj og Oleg Pu­latov auk Úkraínu­manns­ins Leonid Kharchen­ko, beri ábyrgð á því að BUK Tel­ar-flug­skeytið sem grandaði flug­vél­inni hafi verið flutt yfir landa­mæri Rúss­lands til Úkraínu. Rúss­nesk yf­ir­völd hafa neitað því frá upp­hafi að vera viðriðin árás­ina. 

„Ég er full hefndartilfinninga, hatri, reiði og ótta,“ sagði Ria van der Steen en hún missti föður sinn og stjúpmóður í slysinu. Van der Steen var fyrst til að bera vitni í réttarhöldunum.

„Ég veit að þau eru dáin og að ég mun ekki sjá þau aftur, en ég get ekki bundið enda á sorgarferlið fyrr en þeir sem bera ábyrgð á dauða þeirra verða fundir sekir fyrir það sem þeir hafa gert.“

90 ættingjar bera vitni

Úkraína og Rússland hafa neitað að fram­selja hina ákærðu og því eru þeir ekki viðstadd­ir rétt­ar­höld­in. Einungis Rússinn Pulatov hefur lögmann sem er viðstaddur réttarhöldin.

Vanessa Rizk missti báða foreldra sína í flugslysinu, hún sagði þá ákærðu eiga skilið refsingu fyrir „viðbjóðslega glæpi þeirra“. Þá kallaði hún eftir að Vladímír Pútín, Rússlandsforseti svaraði fyrir glæpina.

Gert er ráð fyrir að um 90 ættingjar muni bera vitni fyrir hollenska dómstólnum á næstu dögum. Dómur í málinu verður kveðinn upp eftir ár.

Frétt á vef The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert