Í réttarsal í fyrsta sinn frá því í febrúar 2019

Khalid Sheikh Mohammed.
Khalid Sheikh Mohammed. AFP

Khalid Sheikh Mohammed, sem er sakaður um að hafa skipulagt hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september árið 2001, mætti, ásamt fjórum öðrum sakborningum, í réttarsal í dag í fyrsta sinn í rúma 18 mánuði, en réttarhöldunum hafði verið frestað sökum kórónuveirufaraldursins. 

Undirbúningsréttarhöldin fara fram í herstöð Bandaríkjahers við Guantanamo-flóa á Kúbu, en þau hófust fyrir níu árum. Salurinn var þéttsetinn er Mohammed gekk inn. Fyrir utan saksóknara og fimm teymi verjenda, fylgjast fjölmiðlar grannt með. Einnig er réttað yfir meintum samverkamönnum Mohammend, þeim Ammar al-Baluchi, Walid bin Attash, Ramzi bin al-Shibh og Mustafa al-Hawsawi. Mikil öryggisgæsla er á staðnum. 

Tuttugu ár verða 11. september frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin.
Tuttugu ár verða 11. september frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin. AFP

Alls létust 2.976 í árásunum fyrir tveimur áratugum, og á meðal þeirra sem fylgjast með málinu eru ættingjar hinna látnu. 

Verði sakborningarnir fundnir sekir um ódæðin þykir líklegt að þeirra bíði dauðadómur.

Óvíst er þó hvenær réttarhöldunum muni ljúka, en eitt aðalágreiningsefnið eru meintar pyntingar sem liðsmenn CIA eru sagðir hafa beitt sakborningana við yfirheyrslur. 

Biden vill loka Guantanamo-stöðinni áður er kjörtímabiið er á enda

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að hann stefni á að loka Guantanamo-stöðinni áður en kjörtímabili hans lýkur. Talið er að rúmt ár geti liðið þar til aðalmeðferð málsins fer loks fram. 

Það var í febrúar árið 2019 sem hópurinn kom síðast saman í réttarsal. 

Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar að lítill vafi leiki á að Mohammed, sem er einnig þekktur sem KSM, hafi tekið virkan þátt í að undirbúa árásirnar. 

Frá Guantanmo-herstöð Bandaríkjanna á Kúbu.
Frá Guantanmo-herstöð Bandaríkjanna á Kúbu. AFP

Hann sagði við yfirheyrslur að árið 1996 hefði hann lagt til við Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna, að gera árás á Bandaríkin. Hann hafi síðan haft yfirumsjón með aðgerðinni þar sem 19 liðsmenn hryðjuverkasamtakanna rændu fjórum bandarískum farþegaþotum og var tveimur þeirra flogið á Tvíburaturnana í New York og einnig á Pentagon-bygginguna. Fjórða vélin brotlenti svo á akri í Pennsylvaníu. 

Hinir sakborningarnir eru sakaðir um að hafa aðstoðað við allan undirbúning, komið að þjálfun flugræningjanna, séð um að millifæra fjármuni og samræma aðgerðir. 

Pyntingar í brennidepli

Fimmmenningarnir voru handteknir á árunum 2002 og 2003. Bandaríska leyniþjónustan var þá með mennina í haldi á nokkrum ónefndum stöðum víða um heim í rúm tvö ár, þar sem þeir þurftu að þola mikið harðræði og bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi, sem í dag er skilgreint sem pyntingar. 

Þá voru mennirnir fluttir til Guantanamo fyrir 15 árum. 

Réttarhöldin fara fram í Camp Justice, sem tilheyrir Guantanamo-herstöðinni.
Réttarhöldin fara fram í Camp Justice, sem tilheyrir Guantanamo-herstöðinni. AFP

Verjendur mannanna halda því fram að pyntingarnar varpi skugga á réttarhöldin og útiloki þar með að mennirnir hafi hlotið réttláta málsmeðferð. Þeir halda því fram að ef málið hefði farið fyrir alríkisdómstól í Bandaríkjunum hefði málinu verið vísað frá. 

Verjendurnir segja að þær upplýsingar sem hafi komið fram við yfirheyrslu CIA séu ekki heimil fyrir dómi. Sömu sögu sé að segja með yfirheyrslur sem bandaríska alríkislögreglan, FBI, stóð að árið 2007 í tengslum við málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert