Segir talíbana þurfa vinna fyrir lögmæti sínu

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í Þýskalandi að ný stjórn talíabana í Afganistan þyrfti að vinna sér inn lögmæti frá ríkjum heimsins.

Blinken er staddur í Þýskalandi til þess að ræða við bandamenn sína um hvernig ríkin eigi að vera samstíga í aðgerðum sínum gagnvart ríkisstjórn talíbana. 

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði á blaðamannafundinum að alþjóðasamfélagið byggist við því að talíbanar myndu styðja við mannréttindi, sérstaklega réttindi kvenna, og að stjórnin myndi leyfa fólki að yfirgefa Afganistan. 

Maas sagði að fundurinn í Þýskalandi væri upphafið að alþjóðlega samræmdum aðgerðum um hvernig eigi að eiga við stjórn talíbana.

Bæði Maas og Blinken gagnrýndu nýja ríkisstjórn talíbana sem samanstendur einungis af karlmönnum sem eru háttsettir í hópi talíbana. Innanríkisráðherrann er eftirlýstur af bandarísku alríkislögreglunni FBI fyrir að leiða vígasamtök.

Bandaríkin segjast ekki ætla að viðurkenna stjórn talíbana formlega. Síðast þegar talíbanar höfðu yfirráð í Afganistan viðurkenndu einungis þrjú ríki ríkisstjórn þeirra, Pakistan, Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert