Dularfull ljós fylgdu jarðskjálftanum

Ljósin leiftruðu á sjóndeildarhringnum.
Ljósin leiftruðu á sjóndeildarhringnum. Skjáskot/Foro

Jarðskjálfti upp á 7,1 stig, sem skók suðvesturströnd Mexíkó í fyrrakvöld, var ekki það eina sem skaut íbúum landsins skelk í bringu. Í strandborginni Acapulco gat fólk séð skær blá ljós leiftra yfir sjóndeildarhringnum.

Fljótt tóku að breiðast út um samfélagsmiðla upptökur af því sem fyrir brá.

Og sjónarspilið var ótrúlegt.

Til marks um það hvert hugur fólks leitaði þá var myllumerkið #Apocalipsis mikið notað á samfélagsmiðlum og þá vísað til þess heimsendis sem lýst er í Opinberunarbók biblíunnar.

Náttúrulegt fyrirbrigði

Troy Shinbrot, eðlisfræðingur við Rutgers-háskóla í Bandaríkjunum, segir að ekki þurfi að óttast heimsendi. Bláu ljósin séu að minnsta kosti ekki fyrirboði um slíkt.

„Ef svo væri, þá hefði heimsendirinn orðið fyrir þúsundum ára þegar þetta fyrirbrigði uppgötvaðist fyrst,“ segir Shinbrot í samtali við bandaríska miðilinn NPR.

Þó er ekki að fullu ljóst hvað veldur.

Einhverjir vísindamenn telja leiftrin stafa frá núningi bergs nærri jarðskorpunni, sem leysi úr læðingi orku upp í andrúmsloftið, en ljóst er að leiftrin verða til við yfirborð jarðarinnar.

Jarðskorpa og límbandsrúlla

Sjálfur hefur Shinbrot reynt að endurskapa fyrirbrigðið á rannsóknastofu sinni. Kveðst hann hafa mælt rafspennubreytingar sem líkjast því sem á sér stað þegar jarðskorpan gengur til í jarðskjálfta.

Hvetur hann þá sem eru forvitnir um þetta til að taka límbandsrúllu inn í myrkt rými og fletta því snögglega aftur. Segir hann að um leið ætti límbandið að gefa frá sér ljós í örstutta stund.

Samt sem áður varar hann við því að tengja ekki skjálftaljósin of mikið við límbandstilraunina. Enn sé margt sem vísindamenn viti ekki um fyrirbrigðið.

mbl.is