Noregur roðnar á smitkortinu

Tvö rauð fylki bætast í hópinn í Noregi með sókn …
Tvö rauð fylki bætast í hópinn í Noregi með sókn Delta-afbrigðisins skæða en í gær var greint frá því að nýsmit í Noregi næstliðinn sólarhring hefðu verið 1.546. Kort/ECDC

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins, ECDC, hefur fært tvö norsk fylki yfir á rautt á kórónusmitkorti sínu, Þrændalög og Mæri og Raumsdal, en fyrir voru Ósló, sem er eigið fylki, Viken, Agder og Vestland rauð. Rammt hefur kveðið að Delta-afbrigði veirunnar í Noregi sem annars staðar og í gær höfðu 1.546 nýsmit greinst í landinu sólarhringinn á undan.

Tíðindin koma Tove Røsstad, yfirlækni sveitarfélagsins Þrándheims, lítið á óvart í ljósi nýsmita þar á bæ. „Þróunin hefur verið í rétta átt hjá okkur en nú er það Delta-veiran sem vomir yfir og þeir sem eru óbólusettir eða hafa bara fengið fyrri sprautuna smitast auðveldlega,“ segir hún og bætir því við að nú skipti öllu máli að fólk sýni aðgát.

Krefst skjótra inngripa

Vegard Ansok, aðstoðarfylkislæknir í Mæri og Raumsdal, tekur í sama streng í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Upplifunin í þeim sveitarfélögum sem nú glíma við smit er sú að fólk smitast ört. Þetta krefst skjótra inngripa og mikillar vinnu þar til næst að setja útbreiðslunni hömlur,“ segir Ansok.

Hraðprófin svokölluðu eru í mikilli notkun og segir Ansok styttast í að hörgull verði á prófunum og embætti fylkismanns gæti neyðst til að grípa inn í hvað úr hverju og skammta einstökum sveitarfélögum prófin.

Almenningur er orðinn ýmsu vanur, eins og annars staðar, og segir Jorunn Flemmen, sem hittist fyrir á götu í Kristiansund í Mæri og Raumsdal, að hún beri einkum kvíðboga fyrir heilsu barnanna. „Það eru jú þau sem smitast títt nú um stundir og þau geta líka smitað óbólusetta,“ segir Flemmen, en Ruth Abrahamsen ber höfuðið hátt og kveðst ekki hafa sérstakar áhyggjur af því að fylkið sé nú skráð rautt á kortinu fræga. „Ég hef einhverjar áhyggjur af að smitast en ég hugsa ekki mikið um það,“ segir hún og tekur fram að hún hafi farið mjög varlega.

NRK

NRKII (346 ný smit í Þránheimi um helgina)

VG (ný smitbylgja í Þrándheimi)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert