Útilokað að sanna hver ók

Fyrsta verk ökumannsins eftir að hafa ekið um Soknedalsgöngin í …
Fyrsta verk ökumannsins eftir að hafa ekið um Soknedalsgöngin í Midtre Gauldal í Þrændalögum í nóvember var auðvitað að deila myndskeiði af hraðamæli bifreiðarinnar á Tik Tok. Það endaði á borði lögreglu sem nú hefur fellt málið niður vegna sönnunarskorts. Ljósmynd/Úr einkasafni

Lögreglan í Þrændalögum í Noregi hefur lagt niður alvarlegasta brotamál á sviði hraðaksturs sem nokkru sinni hefur komið upp í þeim landshluta, mál ökumanns sem ók á 288 kílómetra hraða miðað við klukkustund gegnum Soknedalsgöngin í Midtre Gauldal í nóvember í fyrra og deildi myndskeiði af athæfi sínu á samfélagsmiðlinum TikTok.

Eins og mbl.is greindi frá í febrúar leið svo og beið uns barna­börn Ninu Bratt Staver­løkk, bæj­ar­full­trúa í Midtre Gaul­dal, bentu henni á mynd­skeiðið eftir að hafa rekist á það á samfélagsmiðlinum. Féll bæjarfulltrúanum allur ketill í eld og hafði samband við lögreglu sem kallaði eiganda myndskeiðsins, og bifreiðarinnar, til yfirheyrslu auk þess að rannsaka bifreiðina hátt og lágt með tilliti til þess hvort þar væri kominn sá færleikur sem sést í myndskeiðinu.

Rannsóknin beið hins vegar skipbrot þegar ljóst varð að í bifreiðinni voru þrír ungir menn þegar brotið átti sér stað og neituðu allir staðfastlega að hafa setið undir stýri þrátt fyrir að lögregla saumaði mjög að þeim í yfirheyrsluherbergjum sínum.

Lögreglu tekst því með engu móti að sanna hver þremenninganna er hinn brotlegi og hefur nú fellt málið niður sem fyrr segir. „Einhver veit jú hver ók en enginn segir lögreglunni það,“ segir Line Kvarsnes Jullumstrø, ákærufulltrúi lögreglunnar í Þrændalögum, „okkur hafa borist ábendingar sem við höfum kannað og við höfum neytt allra ráða við rannsókn málsins í von um að afhjúpa hinn seka.“

Óheppilegt og vanhugsað

Ekki hafði yfirvaldið þó erindi sem erfiði. Frode Tiller Skjervø, umdæmisstjóri norsku umferðaröryggissamtakanna Trygg Trafikk í Þrændalögum, kveðst ákaflega vonsvikinn yfir þessari niðurstöðu í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Að málið sé lagt niður er ákaflega óheppilegt og vanhugsað. Ég vonaðist til þess að mál á borð við þetta hefði afleiðingar fyrir þá sem á bak við það stóðu,“ segir Skjervø og bætir því við að það sem geri málið enn alvarlegra er að níðingsaksturinn hafi átt sér stað í jarðgöngum með tilheyrandi hættu fyrir alla vegfarendur þar.

Kveður hann það færast í aukana að myndskeið sem sýna ofsaakstur birtist á samfélagsmiðlum sem auki enn á alvarleika þess að þetta tiltekna mál hafi ekki náð lengra. „Því miður hugsa ég að myndskeið af ofsaakstri á samfélagsmiðlum smiti út frá sér. Það er von mín að fólk noti skynsemina og láti af þessari háttsemi,“ segir umdæmisstjórinn.

NRK

VG

mbl.is