Kveðst hafa áhyggjur af óeiningu

George W. Bush, sem gegndi embætti forseta þegar hryðjuverkin voru framin í Bandaríkjunum 11. september 2001, segir óeiningu á meðal landa sinna valda honum áhyggjum af framtíð landsins.

„Vikurnar og mánuðina eftir árásirnar 11. september, þá var ég stoltur af því að leiða ótrúlegt, þrautseigt og sameinað fólk,“ sagði Bush þegar hann ávarpaði þá sem saman voru komnir í Shanksville í Pennsylvaníu í dag, en þar hafnaði fjórða flugvélin eftir að farþegar hennar höfðu barist við flugræningjana um borð.

„Þegar það kemur að samheldninni í Bandaríkjunum, þá virðast þeir dagar fjarlægir þeim sem við lifum,“ bætti hann við.

„Svo mikið af stjórnmálum okkar er farið að snúast um að höfða beinlínis til reiði, ótta og gremju. Það fyllir okkur áhyggjum af þjóðinni okkar og okkar sameiginlegu framtíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert