Vildi frekar deyja en að vera numin á brott

Afganska poppstjarnan Aryana Sayeed bað unnusta sinn um að skjóta hana frekar en að leyfa talíbönum að nema hana á brott á lífi, þegar þau flúðu frá Afganistan 16. ágúst síðastliðinn, daginn eftir að Kabúl, höfuðborg landsins, féll í hendur talíbana. Hún býr nú ásamt unnusta sínum Hasib Sayed í Istanbúl í Tyrklandi. 

Sayeed er heimsfræg og hefur um 1,4 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlinum Instagram. Henni er gjarnan líkt við hina bandarísku Kim Kardashian. Sayeed, sem hefur barist ötullega fyrir réttindum kvenna í heimalandi sínu, hefur, að hennar sögn, verið skotmark talíbana í um 10 ár. 

Aryana Sayeed býr nú í Istanbúl ásamt unnusta sínum.
Aryana Sayeed býr nú í Istanbúl ásamt unnusta sínum. AFP

„Ég var ekki hrædd við að deyja“

„Áður en við fórum af stað frá húsinu okkar og á flugvöllinn bað ég unnusta minn um að lofa mér einu,“ segir Sayeed í samtali við AFP. 

„Ég sagði við hann: „Ef þeir eru við það að ná mér lifandi vil ég biðja þig um að skjóta mig. Skjóttu mig bara beint í höfuðið og dreptu mig. Ekki leyfa þeim að taka mig í burtu á lífi.“ Það var það eina sem ég var hrædd um. Ég var ekki hrædd við að deyja.“

Sayeed er gjarnan líkt við bandarísku raunveruleikastjörnuna Kim Kardashian.
Sayeed er gjarnan líkt við bandarísku raunveruleikastjörnuna Kim Kardashian. AFP

Sayeed segir að hún muni ekki geta snúið aftur til heimalandsins á meðan talíbanar ráða þar ríkjum. 

„Það er bara draumur sem stendur, ég veit ekki hvort það verði raunveruleikinn nokkurn tímann aftur. Ég veit ekkert um það. Ef talíbanarnir eru enn til staðar er án efa ekkert pláss fyrir mig í Afganistan. Talíbana þyrstir í blóð mitt. Ég hef verið skotmark þeirra síðastliðin 10 ár.“

mbl.is