Höfum ekki efni á því að gleyma afgönskum konum

Anita Bhatia, staðgengill framkvæmdastjóra UN Women á alþjóðlegri grundu.
Anita Bhatia, staðgengill framkvæmdastjóra UN Women á alþjóðlegri grundu.

„Það er gríðarlega mikilvægt að gleyma ekki Afganistan og afgönskum konum. Nýjar fréttir dælast stöðugt inn og á morgun eru ný málefni tekin við af þeim sem voru til umræðu í dag, en við höfum einfaldlega ekki efni á því að gleyma afgönskum konum,“ segir Anita Bhatia, staðgengill framkvæmdastjóra UN Women á alþjóðlegri grundu, í samtali við mbl.is.

„Ef talíbanar geta komist upp með það sem þeir hafa gert gegn konum í Afganistan þá eru öfgahópar annars staðar í heiminum sem munu verða innblásnir af þessu og munu einnig reyna að bæla niður konur og við þurfum að vera mjög vakandi fyrir því.“

Tóku hugrakka ákvörðun

Í ágústmánuði, skömmu eftir yfirtöku talíbana í Afganistan, leitaðist mbl.is eftir viðbrögðum frá UN Women á Íslandi. 

Stella Samú­els­dótt­ir, fram­kvæmda­stýra UN Women á Íslandi, sagði þá að mat stofnunarinnar væri að of áhættu­samt væri fyr­ir UN Women að fjalla um stöðuna í Af­gan­ist­an á meðan verið væri að tryggja ör­yggi af­ganskra sam­starfs­kvenna þeirra, sam­starfs­fé­laga og þeirra sem notið hafa góðs af verk­efn­um UN Women.

Spurð út í þessa ákvörðun stofnunarinnar segir Bhatia að þegar talíbanar tóku yfir hafi stofnunin tekið þá hugrökku ákvörðun að vera áfram með skrifstofu sína í Afganistan til þess að yfirgefa ekki fólkið þar í landi sem þurfi á þeirra aðstoð að halda.

„Þegar stofnun hefur nafn eins og UN Women verður hún skotmark fyrir stjórnvöld eða yfirvöld sem eru andvíg réttindum kvenna og við töldum það mjög mikilvægt að vera áfram í landinu þar sem okkar teymi fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna á ennþá í viðræðum við talíbana í mannúðarskyni,“ segir Bhatia.

„Það er eitt sem er ekki talað mikið um, það er áframhaldandi mannúðarkrísa í Afganistan, þar eru fjörutíu milljónir manns sem hafa ekki nóg af mat, þar eru sjö milljónir fólks sem hafa ekki aðgang að heilsugæslu og nauðsynlegri þjónustu, þar eru þrjár milljónir barna á barmi vannæringar og sem eru vannærð, þannig að það eru raunveruleg vandamál varðandi grunnfæði og heilsuöryggi í Afganistan ásamt öllu öðru.“

Búrkuklædd kona sem hylur andlit sitt heldur á barni sínu …
Búrkuklædd kona sem hylur andlit sitt heldur á barni sínu á meðan hlýtt er á ávarp stuðningsmanna talíbana. AFP

Miklar framfarir í kvenréttindabaráttunni á síðustu 20 árum

„UN Women hefur lengi unnið í Afganistan með kvenréttindasamtökum og á síðustu tuttugu árum hefur tekist að ná miklum framförum í kvenréttindabaráttunni þar.

Konur hafa verið í fjölmiðlum, á þinginu, kennarar, læknar, lögfræðingar, verkfræðingar og í öllum stéttum samfélagsins. Vegna þess að Afganistan samanstendur af tiltölulega ungum íbúum, þar sem um tveir þriðju íbúanna eru undir 25 ára aldri, hafa margir engar minningar af því þegar talíbanar voru síðast við völd.“

Bhatia segir þetta því mikið áfall fyrir flesta í Afganistan og það því gríðarlega mikilvægt að ganga úr skugga um að öll þau réttindi sem konur hafa öðlast á síðustu árum tapist ekki.

Afganskar konur mótmæla réttindaskerðingum í Kabúl í byrjun ágúst.
Afganskar konur mótmæla réttindaskerðingum í Kabúl í byrjun ágúst. AFP

Eiga í viðræðum við talíbana

„Því höfum við haldið skrifstofu okkar þar í landi áfram með fólki þar, og starf okkar er fyrst og fremst að tryggja að allar umræður við talíbana um mannúðarmál feli í sér áherslu á konur, sem þýðir að konur ættu að fá að vinna sem mannúðarstarfsmenn, sem veitendur mannúðaraðstoðar og einnig að fá hana veitta,“ segir hún.

„Í öðru lagi erum við að biðja um að hefndaraðgerðum verði ekki beitt gegn konum sem voru í fyrrverandi ríkisstjórn og konum sem störfuðu í öryggissveitum, á þingi og öðrum störfum sem tengjast fyrrverandi ríkisstjórn, sem lifa nú í ótta um eigið líf.

Í þriðja lagi erum við að biðja um að konur fái þátttökurétt í opinberu- og einkalífi, sem þýðir að stúlkur og konur eiga að fá að ganga í skóla, fá að vinna og vera hluti af stjórnvöldum.“

„Þetta er eins og þungur fangelsisdómur fyrir afganskar konur,“ segir …
„Þetta er eins og þungur fangelsisdómur fyrir afganskar konur,“ segir Bhatia. AFP

Þungur fangelsisdómur fyrir afganskar konur

Bhatia segir að þetta sé það sem stofnunin biðji um en að miklar áhyggjur séu af því að það sé stórt bil á milli þess sem talíbanarnir segjast ætla að gera og því sem þeir síðan fylgja eftir.

„Talíbanar sögðust ætla að virða rétt kvenna innan ramma Sjaríalaganna og hingað til höfum við séð að í bráðabirgðastjórn sitja engar konur. Á miðvikudag var síðan tilkynnt að konur hefðu ekki þátttökurétt í íþróttum, þeir hafa sett á takmarkanir á rétt kvenna til menntunar og sett á skilyrði um að konur þurfa ávallt að vera í fylgd karlmanns séu þær á götum úti.

Þetta er eins og þungur fangelsisdómur fyrir afganskar konur. Margar hverjar hafa jafnvel búið einar og séð um sín eigin heimili og geta núna ekki farið út. Talíbanar eru að gera hluti sem þeir sögðu að þeir myndu ekki gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert