Mannskætt flugslys skrifað á mistök flugmanns

Vélin klofnaði í tvennt.
Vélin klofnaði í tvennt. AFP

Mistök flugmanns og brot á öryggisreglum leiddu líklegast til flugslys á Indlandi í ágúst á síðasta ári. 190 voru um borð í vél Air India Express þegar hún hrapaði á Calicut-flugvellinum í Kerala-héraði með þeim afleiðingum að 21 lést. 

Um var að ræða Boeing 737-vél á leið frá Dubai. Vélinni hlekktist á á flugbrautinni og brotnaði í tvennt eftir lendinguna. Vélin hafði áður reynt að lenda en flugmenn vélarinnar ákveðið að hætta við lendinguna vegna veðurs. 

Á meðal hinna látnu voru báðir flugmenn vélarinnar. 75 farþegar slösuðust alvarlega í slysinu. 

Samkvæmt nýútgefinni skýrslu indverskrar rannsóknarnefndar vegna flugslysa brutu flugmennirnir þónokkrar öryggisreglur í aðdraganda lendingarinnar. Samkvæmt skýrslunni hafði biluð rúðuþurrka einnig áhrif á slysið, að því er fram kemur í umfjöllun BBC.

mbl.is