Fimleikastjörnur bera vitni fyrir öldungadeild

Simone Biles er meðal fimleikastjarna sem bera mun vitni.
Simone Biles er meðal fimleikastjarna sem bera mun vitni. AFP

Fimleikastjörnurnar Simone Biles, McKayla Maroney, Maggie Nichols og Aly Raisman munu bera vitni í vikunni á fundi öldungadeildar Bandaríkjaþings vegna rannsóknar alríkislögreglunnar FBI á meintum kynferðisafbrotum fyrrum landsliðslæknisins Larry Nassar.

Þetta staðfestir lögmaður þeirra, John Manly. The Wall Street Journal greinir frá. 

Ámælisverð rannsókn FBI

Rannsókn öldungadeildarinnar er beint að málsmeðferð alríkislögreglunnar á rannsókn sinni á lækninum, í aðdraganda ákvörðunar um fjárútlát vegna dómssáttar við brotaþola Nassars. 

Yfir standa samningar á milli brotaþola og ólympíunefndar Bandaríkjanna upp á 425 milljónir bandaríkjadala, sem samsvarar um 54 milljörðum króna. 

Brotaþolar Nassars eru taldir hlaupa á hundruðum. Þá hafa lögmenn sumra brotaþola farið fram á alríkislögreglan svari sérstaklega fyrir sínar gjörðir og verði sótt til saka í aðskildu máli. 

Í júlí kom skýrsla um rannsókn sérstaks saksóknara á vegum dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna sem leiddi í ljós að fulltrúar alríkislögreglunnar hafi hundsað ásakanir og ábendingar um kynferðislegt ofbeldi af hálfu læknisins á hendur fimleikaiðkenda.

Í skýrslunni kemur fram að starfsmenn fimleikasambandsins leituðu til fulltrúa FBI í Indianapolis vegna Nassars í júlí árið 2015, en voru hundsaðir. 

mbl.is