Gera með sér bandalag gegn Kína

Joe Biden Bandaríkjaforseti greinir frá bandalaginu í Hvíta húsinu í …
Joe Biden Bandaríkjaforseti greinir frá bandalaginu í Hvíta húsinu í kvöld. Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu (t.v) og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands (t.h.) tóku þátt í gegnum fjarfundarbúnað. AFP

Leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu tilkynntu fyrr í kvöld að þeir hygðust mynda með sér nýtt bandalag til að styrkja flotagetu sína á Indlandshafi og Kyrrahafi. Felur bandalagið meðal annars í sér að Ástralir fá kjarnorkuknúna kafbáta, en stjórnmálaskýrendur segja bandalaginu beint gegn uppgangi Kínverja. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að kafbátarnir nýju myndu tryggja það að ríkin hefðu nútímalegustu tækni til þess að bregðast við nýjum ógnum á svæðinu. Kafbátarnir verða hins vegar ekki búnir kjarnorkuvopnum. 

Hvorki Biden, Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu né Boris Johnson forsætisráðherra Breta nefndu Kína á nafn í tilkynningu sinni um hið nýja bandalag, en það mun fá heitið AUKUS.

Háttsettur embættismaður í ríkisstjórn Bidens tjáði hins vegar AFP-fréttastofunni undir nafnleynd að bandalaginu og áhersla þess á kjarnorkuknúna kafbáta sé ætlað að senda skilaboð um að ríkin þrjú vilji viðhalda fælingarmætti sínum í ljósi þess hversu mjög Kínverjar hafi byggt upp sinn eigin flota á Kyrrahafi. 

Þá lagði hann áherslu á það að ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að aðstoða Ástrali við að koma sér upp kjarnorkuknúnum kafbátum sé einstök, en Bretar eru eina þjóðin sem til þessa hefur notið góðs af kafbátatækni Bandaríkjamanna. „Þessi tækni er háleynileg,“ sagði hann og bætti við að þrátt fyrir að bátarnir yrðu ekki búnir kjarnorkuvopnum myndu þeir stórauka flotagetu Ástrala. 

Johnson sagði á blaðamannafundi leiðtoganna að verkefnið yrði eitt hið flóknasta sem ráðist yrði í á næstu árum, og að kafbátarnir ættu að endast í áratugi. Auk kafbátaflotans mun AUKUS-bandalagið vinna saman að aukinni getu ríkjanna í nettækni og gervigreind. 

Gæti vakið reiði Frakka

Talið var að tilkynningin gæti vakið reiði Frakka, en franska herskipasmíðastöðin Naval Group hafði áður gert samkomulag við Ástrali um smíði tólf hefðbundinna kafbáta, sem knúnir væru díselolíu, en það var metið á um 31 milljarð evra.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafði einnig stutt við samkomulag Naval Group og Ástrala opinberlega, en verkefnið hafði tafist um mörg ár og var búið að keyra fram úr upphaflegum kostnaðaráætlunum þess. Var málið því orðið að ásteitingarsteini í áströlskum stjórnmálum. 

Sagði talsmaður Naval Group að ákvörðunin um bandalagið hefði ollið fyrirtækinu miklum vonbrigðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert