Fangelsi eigi ekki að vera stefnumótamiðstöðvar

Peter Madsen var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa orðið …
Peter Madsen var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa orðið sænsku blaðakon­unni Kim Wall að bana árið 2017. AFP

Ríkisstjórn Danmerkur hefur lagt fram frumvarp sem bannar föngum sem afplána lífstíðardóm að ganga í nýtt rómantískt samband.

Frumvarpið kveður á um að fangarnir megi einungis vera í sambandi við þá sem eru þeim þegar nærri á fyrstu tíu árum afplánunar þeirra.

Á vef BBC kemur fram að ráðherrar voni að frumvarpið komi í veg fyrir að glæpamenn laði að sér fylgismenn.

Frumvarpið er lagt fram í kjölfar þess að 17 ára stúlka sagðist hafa orðið ástfangin af Peter Madsen, sem var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa orðið sænsku blaðakon­unni Kim Wall að bana árið 2017.

Cammilla Kürstein sagðist hafa orðið ástfangin af Madsen eftir að þau áttu í bréfaskiptum og töluðu saman í síma á tveggja ára tímabili. Hún varð afbrýðissöm þegar að Madsen giftist Jenny Curpen árið 2020.

Sækjast eftir samúð og athygli

Nick Haekkerup dómsmálaráðherra sagði í yfirlýsingu að það yrði að stöðva þessi sambönd. Hann sagði að dæmdir glæpamenn „ættu ekki að geta notað fangelsin sem miðstöðvar fyrir stefnumót eða sem tækifæri til þess að monta sig af glæpum sínum.“

„Við höfum séð viðbjóðsleg dæmi á undanförnum árum um fanga sem hafa framið viðurstyggilega glæpi og hafa samband við ungt fólk til að fá samúð þeirra og athygli,“ segir í yfirlýsingu Hakkerup.

Frumvarpið mun einnig banna föngum að birta færslur um glæpi sína á samfélagsmiðlum að vild eða ræða um þá í hlaðvörpum. 

Gagnrýnendur telja frumvarpið vera í bága við lög um tjáningarfrelsi.

Frumvarpið er nú í nefnd og ef samþykkt er talið að það muni taka gildi í byrjun næsta árs.

mbl.is