Höfuðpaur innan raða Isis myrtur

Samtök íslamska ríkisins á stór Sahara-svæðinu (ISGS) urðu til árið …
Samtök íslamska ríkisins á stór Sahara-svæðinu (ISGS) urðu til árið 2015. AFP

Höfuðpaur undirsamtaka Isis-hryðju­verka­samtakanna hefur verið drepinn af frönskum hermönnum. Emmanuel Macron Frakklandsforseti greindi frá þessu á Twitter í gær. 

Á vef BBC segir að Adnan Abu Walid al-Sahrawi hafi stofnað samtök íslamska ríkisins á stór Sahara-svæðinu (ISGS) árið 2015 þegar Isis-sam­tök­in voru á hápunkti valdatíðar sinn­ar í Írak og í Sýr­landi.

Samtökin eru sögð bera ábyrgð á fjölda árása á svæðinu sem nær frá Senegal í vestri til Somalíu í austri, eða um þrjár milljónir ferkílómetra, meðal annars voru franskir mannúðarstarfsmenn drepnir af ISGS árið 2020.

Florence Parly, varnarmálaráðherra Frakklands, sagði á Twitter að al-Sahrawi hafi látist eftir aðgerðir Barkhane hersins, sem berst gegn vígamönnum í Malí, Níger, Tsjad og Búrkína Fasó.

Hún sagði að aðgerðin væri „afgerandi högg gegn hryðjuverkasamtökunum“ og að „baráttan héldi áfram“.

Al-Sahrawi fæddist árið 1973 á umdeildu yfirráðasvæði í vesturhluta Sahara eyðimerkurinnar. Hann barðist fyrir Polisario Front sem hefur barist fyrir sjálfstæði frá Marókkó. Síðar gekk hann til liðs við al-Qaeda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert