Fyrstu réttarhöldin vegna veirusmita í Ischgl

Fjölmiðlum gafst færi á myndatökum áður en fyrirtakan hófst.
Fjölmiðlum gafst færi á myndatökum áður en fyrirtakan hófst. AFP

Fyrsta einkamálið á hendur yfirvöldum í Tírol í Austurríki, þar sem þau eru sökuð um að hafa ekki brugðist nógu hratt við útbreiðslu kórónuveirunnar snemma á síðasta ári, var tekið fyrir í dómstól í höfuðborginni Vín í dag.

Lögsóknin er sú fyrsta sem tekin er fyrir af samtals fimmtán málum, sem fólk frá Austurríki og Þýskalandi hefur höfðað af þessu tilefni.

Málið er sótt fyrir hönd Sieglinde og Ulrichs Schopf, ekkju og sonar hins 72 ára Hannesar Schopf, sem lést eftir að hafa smitast af veirunni í vinsæla skíðabænum Ischgl.

Ulrich Schopf á leið til réttarhaldanna í dag.
Ulrich Schopf á leið til réttarhaldanna í dag. AFP

Þurfi að vaxa úr grasi án afa síns

Ulrich Schopf sótti fyrirtökuna í dag ásamt lögfræðingum fjölskyldunnar, en fjöldi fjölmiðla var saman kominn í Réttlætishöllinni í Vín – Justizpalast, aðsetri hæstaréttar Austurríkis – til að fylgjast með gangi mála.

Lögmaðurinn Alexander Klauser tjáði réttinum að Sieglinde þjáist enn hvern dag sökum andláts eiginmanns síns. Bætti hann við að Ulrich finni á sama tíma fyrir reiði gagnvart þeim sem beri ábyrgð á dauða föður síns. Fjögurra ára sonur hans þurfi nú að vaxa úr grasi án afa síns.

Alls hljóðar bótakrafan í málinu upp á hundrað þúsund evrur, eða sem nemur rúmlega fimmtán milljónum króna.

mbl.is