Sá grunaði einnig horfinn sporlaust

Lögreglan í North Port lét þessa mynd fylgja með yfirlýsingu …
Lögreglan í North Port lét þessa mynd fylgja með yfirlýsingu sinni. Ljósmynd/Lögreglan í North Port

Ungur bandarískur karlmaður sem grunaður var um aðild í dularfullu mannshvarfi, þar sem unnusta hans hvarf, er nú einnig horfinn sporlaust samkvæmt frásögn fjölskyldu hans. 

BBC greinir frá. 

Hinn 23 ára Brian Laundrie, hafði réttarstöðu grunaðs manns eftir að hann snéri einsamall aftur úr ferðalagi með unnustu sinni, Gabrielle Petito, sem er 22 ára. Brian var ekki eftirlýstur af lögreglu vegna málsins. 

Snéri einn heim og neitaði að tala við lögreglu

Hjónaleysin höfðu lagt í ferðalag á húsbíl í júlí og greindu jafnóðum frá ferðum sínum á samfélagsmiðlum. 

En þann 1. september snéri Brian Laundrie einn heim. Fjölskylda Gabrielle Petito tilkynnti hvarf hennar til lögreglu í kjölfarið. 

Í vikunni hafði lögreglan reynt að ná tali af Laundrie en hann hafði forðast lögreglu og neitað að ræða við hana. 

Lögreglan sendi síðan frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kemur að fjölskylda Laundrie segist ekkert hafa séð eða heyrt af honum síðan á þriðjudaginn. 

„Í sex daga hefur lögregla ásamt FBI [alríkislögreglunni] reynt að höfða til fjölskyldu um að hjálpa við rannsókn á hvarfi Petito. Þau tjáðu sig fyrst við lögreglu í gær,“ segir í tilkynningunni frá lögreglunni, sem var gefin út í dag. 

Í henni kemur fram að málið sé ekki enn rannsakað sem glæpur heldur sem tvö mannshvörf. 

Telja Brian hafa flúið

Fólk kom saman fyrir utan heimili Laundrie fjölskyldunnar í gær til að mótmæla og öskruðu „hvar er Gabby?“, á meðan lögreglan ræddi við foreldra Brians. 

Cassandra, systir Brians, sagði við ABC-fréttastofu að það eina sem hún vissi um málið hefði hún heyrt í fréttum. Hún sagði sig og  fjölskyldu sína vona innilega að Gabrielle sé heil á húfi og þau hugsi hlýtt til hennar. 

Lögmaður fjölskyldu Gabrielle vill þó meina annað og sagði hann augljóst að Brian hafi hlaupist í felur, Gabby væri sú eina sem væri horfin. 

Parið hlóð upp myndskeiði af upphafi ferðalags síns, þar sem þau ferðuðust um á hvítum Ford bíl á Youtube. Myndskeiðið hefur fengið yfir 600 þúsund áhorf á veitunni. 

Sjá má myndskeiðið hér: 

mbl.is