Pútín heldur völdum í Rússlandi

Af kjörstað í Moskvu.
Af kjörstað í Moskvu. AFP

Allt bendir til þess að flokkur Vladimírs Pútín viðhaldi meirihluta í rússneska þinginu. Flestum andófsmönnum forsetans var með einum eða öðrum hætti bannað að taka þátt í kosningunum sem fóru fram nú um helgina.

Aðalandstæðingur Pútíns, Alexei Navalní, situr á bak við lás og slá og flokkurinn hans var skilgreindur sem „öfgasamtök“ af yfirvöldum.

Navalní og hans teymi hönnuðu smáforrit fyrir þessar kosningar sem benti kjósendum á hvaða frambjóðanda þeim bæri að kjósa til þess að losna undan núverandi valdstjórn. 

Forritið var fjarlægt af öllum miðlum og vefverslunum Apple og Google en heimildir AFP herma að rússnesk yfirvöld hafi beitt sér fyrir þessu með hótunum um handtöku starfsmanna tæknirisanna. 

Halda tveimur þriðju þingsæta

Kosningarnar standa alla helgina sem eykur líkur á kosningasvindli en óháðir eftirlitsaðilar segja hið minnsta 2.750 tilkynningar um kosningamisferli hafa borist. 

Flokkur Pútíns virðist viðhalda tveimur þriðju sætanna í neðri deild þingsins sem mun framlengja valdatíð þessa 68 ára stjórnmálamanns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert