Segist alltaf hafa verið skýr um stöðu Ástralíu

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. AFP

Ástralía hefur varið ákvörðun sína um að hætta við margra milljarða dala kafbátakaup frá Frakklandi í þágu nýs öryggissáttmála við Bandaríkin og Bretland. Forsætisráðherrann Scott Morrison hafnaði ásökunum um að Ástralía hefði logið og sagði að Frakkar hefðu átt að vera meðvitaðir um að þeir væru tilbúnir til að rjúfa samninginn.

BBC greinir frá.

Frakkland segir Aukus-sáttmálann hafa leitt til „alvarlegrar kreppu“ milli bandamannanna. Samkvæmt sáttmálanum mun Ástralía fá tæknina til að byggja kjarnorkuknúna kafbáta sem leið til að vinna gegn áhrifum Kína í hinu umdeilda Suður-Kínahafi.

Franska stjórnin hafi haft fulla ástæðu til að vita af áhyggjum Ástralíu

Morrison sagði í dag að hann skildi vonbrigði Frakka, en að hann hafði alltaf verið skýr um stöðu Ástralíu. Hann sagði frönsku stjórnina hafa haft „fulla ástæðu til að vita að við hefðum miklar og alvarlegar áhyggjur“.

Ummæli Morrison komu eftir að Jean-Yves Le Dria, utanríkisráðherra Frakklands, sagði við sjónvarpsstöðina France 2 að það hefði verið „lygi, tvískinningur, mikill trúnaðarbrestur og fyrirlitning“ í kjölfar samningsins.

Hann sagði að sendiherrar Frakklands í Bandaríkjunum og Ástralíu væru kallaðir aftur til að „endurmeta ástandið“, en að „ekki hefði verið þörf“ á að kalla sendiherrann í Bretlandi, sem hann lýsti sem „þriðja hjólinu“.

Búist er við því að Joe Biden forseti Bandaríkjanna eigi viðræður við Emmanuel Macron Frakklandsforseta á næstu dögum.

mbl.is