Telja fanga hafa fengið byssusendingu með dróna

Ítalskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni.
Ítalskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni. AFP

Ítalskur fangi skaut á aðra fanga í gegnum rimla fangaklefa í öryggisfangelsi í gær. Yfirvöld telja að dróni hafi flutt skotvopnið inn fyrir múra fangelsisins.

Árásarmaðurinn, sem er 28 ára gamall, tengist Neapolitan-mafíunni. Hann átti í útistöðum við aðra menn sem varð til þess að hann beitti skotvopninu. Hann skaut alls þremur skotum en engan sakaði, að því er fram kemur í frétt AFP-fréttaveitunnar. 

Maðurinn hafði fengið leyfi til að fara í sturtu en þegar klefinn var opnaður dró hann upp skotvopnið og miðaði á fangavörðinn, sem hann neyddi til að afhenda sér lykla að öðrum fangaklefum. 

Fanganum tókst hins vegar ekki að opna klefa fanganna sem hann átti í útistöðum við, en brást þá við með því að skjóta í gegnum rimlana. Fanginn tók síðan upp farsíma, sem hann var með í leyfisleysi, til að hringja í lögmanninn sinn, sem ráðlagði honum að afhenda yfirvöldum vopnið. Fangelsið, sem er ekki nefnt á nafn, er hámarksöryggisfangelsi sem er um 100 km suðaustur af Rómarborg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert