Skógareldar 38 kílómetra frá Aþenu

Á sjöunda tug slökkviliðsmanna berjast nú við eldana.
Á sjöunda tug slökkviliðsmanna berjast nú við eldana. AFP

Nýir skógareldar hafa brotist út í Grikklandi norðaustur af Aþenu. Eldarnir hafa læst sig í runna og tré og yfirvöld vinna nú að því að koma fólki í grenndinni í burtu til vonar og vara við ef eldurinn kemst inn í byggðina.

Í síðasta mánuði upplifðu Grikkir elda sem náðu yfir 100 þúsund hektara og kostuðu þrjú mannslíf. Upptök eldanna hafa verið rakin til loftslagsbreytinga.

Á sjöunda tug slökkviliðsmanna, á tuttugu slökkviliðsbifreiðum, berjast nú við eldana í bænum Nea Makri, sem er ekki nema 38 kílómetra frá höfuðborginni Aþenu.

Eldurinn braust út nálægt heimilum í Nea Makri og því hefur fólk í grenndinni verið hvatt til að yfirgefa híbýli sín og koma sér í öruggt skjól, lengra frá eldinum.

Hitinn í Grikklandi náði 35 gráðum yfir helgina en féll niður í 32 gráður í dag. Því er spáð að hitinn fari áfram lækkandi eftir því sem líður á vikuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina