Allt lék á reiðiskjálfi í myndveri í Melbourne

Jarðskjálfti reið yfir suðausturhluta Ástralíu í dag sem varð til þess að byggingar hristust, veggir gáfu sig og íbúar Melbourne hlupu í skyndi út á götur í hræðslu. Skjálftar sem þessi eru sjaldgæfir á þessum slóðum. 

Jarðskjálftinn hristi fréttamyndver hressilega í Melbourne og mátti sjá af viðbrögðum fréttamanna að þeim var talsvert brugðið. Myndband af atvikinu náðist er fréttamennirnir áttu samtal sín á milli áður en bein útsending hófst.

Skjálftinn var 5,9 að stærð og varð austur af næststærstu borg landsins snemma um morgun og var einn sá stærsti sem orðið hefur í landinu í áratugi.

Flestir íbúar Melbourne voru heima hjá sér er jarðskjálftinn varð, þar sem áttunda vika útgöngubanna var að hefjast í borginni.

Á vinsælu verslunarsvæði í kringum Chapel Street í Melbourne hrundu …
Á vinsælu verslunarsvæði í kringum Chapel Street í Melbourne hrundu múrsteinar úr byggingum og út á vegi. AFP

Múrsteinar og járnplötur hrundu

Á vinsælu verslunarsvæði í kringum Chapel Street í Melbourne hrundu múrsteinar og járnplötur úr byggingum og út á vegi.

Zume Phim, 33 ára eigandi kaffihússins Oppen í Melbourne, sagði að hann hefði hlaupið út á götuna er skjálftinn skall á. 

„Öll byggingin titraði, allir gluggar og veggir hristust. Ég hef aldrei upplifað það áður, þetta var svolítið skelfilegt.“

mbl.is