Gefa 500 milljón bóluefnaskammta

Joe Biden forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden forseti Bandaríkjanna. AFP

Joe Biden forseti Bandaríkjanna mun síðar í dag tilkynna að Bandaríkin muni gefa 500 milljón bóluefnaskammta til annarra ríkja að sögn embættismanna. Bandaríkin munu þá í heild hafa skuldbundið sig til að gefa 1,1 milljarð skammta.

Biden mun tilkynna um skammtana á fjarfundi sem haldinn verður í kringum allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna en þar hyggst hann skora á leiðtoga heimsins að bólusetja 70 prósent allra ríkja áður en september 2022 gengur í garð.

„Fyrir hvern bóluefnaskammt sem við höfum gefið hér á landi til þessa gefum við nú þrjá skammta til annarra landa,“ sagði embættiskona ein fyrir fundinn og bætti við að skammtarnir yrðu endurgjaldslausir.

Gagnrýnd fyrir örvunarskammta

Bandaríkin ásamt öðrum auðugum ríkjum hafa verið gagnrýnd af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO, fyrir örvunarskammta fyrir aldraða og fólk í áhættuhópum, en í stórum hluta heimsins ert skortur á bóluefni.

En embættiskonan sagði: „Við erum að sýna að þú getur séð um þitt eigið fólk en líka hjálpað öðrum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert