Óbólusettir fá ekki bætur

Óbólusettir sem lenda í sóttkví munu ekki fá bætur vegna …
Óbólusettir sem lenda í sóttkví munu ekki fá bætur vegna atvinnumissis í Þýskalandi. AFP

Frá og með nóvember munu Þjóðverjar sem ekki eru bólusettir gegn Covid-19 ekki lengur fá bætur vegna launamissis ef þeir þurfa að fara í sóttkví. Þetta sagði Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, eftir fund með heilbrigðisráðherrum sextán ríkja Þýskalands í dag.

Ríkisstjórn Þýskalands hefur hingað til greitt fólki í vinnu bætur, sem hefur verið sent í sóttkví í að minnsta kosti fimm daga eftir að hafa verið í sambandi við sýktan einstakling eða eftir að hafa komið heim eftir viðveru á áhættusvæði erlendis.

Þeirri stefnu mun ljúka 1. nóvember. Markmið stjórnvalda er að hvetja fleiri Þjóðverja til að bólusetja sig.

Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn.
Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn. AFP

Snýst um sanngirni

„Að láta bólusetja sig verður áfram persónuleg ákvörðun en þeirri ákvörðun mun nú fylgja ábyrgðin á að bera fjárhagslegar afleiðingar. Einhverjir munu segja að nú verði þrýstingur á óbólusetta. Ég held að við verðum að horfa á það öfugt – þetta er líka spurning um sanngirni,“ sagði Spahn.

Þeir sem eru bólusettir þurfa ekki lengur að fara í sóttkví í Þýskalandi en alls eru 63,4 prósent Þjóðverja fullbólusett gegn Covid-19.

Taka einungis á móti bólusettum

Mikil umræða hefur verið í Þýskalandi vegna hugsanlegra takmarkana fyrir óbólusetta. Mörg þýsk ríki hafa innleitt reglur sem leyfa t.d. veitingastöðum að taka einungis á móti þeim sem eru bólusettir eða geta sýnt að þeir hafa nýlega veikst af Covid-19.

Í dag var tilkynnt um 10.454 ný tilfelli af Covid-19 í Þýskalandi.

mbl.is