Látinn sonur hringdi

Sørlandet-sjúkrahúsið í Kristiansand játar að alvarleg mistök hafi átt sér …
Sørlandet-sjúkrahúsið í Kristiansand játar að alvarleg mistök hafi átt sér stað þegar starfsfólk gjörgæsludeildar hringdi í fjölskyldu og tilkynnti um lát sonarins í vélhjólaslysi. Maðurinn sem beið bana í slysinu hafði stolið hjóli þess sem gjörgæslan kvað svo látinn á grundvelli eigandaskráningar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Carsten R.D.

Fjölskyldu í Suður-Noregi brá illilega þegar henni barst símtal frá Sørlandet-sjúkrahúsinu í Kristiansand laugardaginn 4. september með þeim voveiflegu tíðindum að rúmlega tvítugur sonur í fjölskyldunni hefði látist í alvarlegu vélhjólaslysi á E-18-brautinni fyrr um daginn.

Fjölskyldan, sem vill ekki ræða málið við norska fjölmiðla, en heimilar að greint sé frá því, hefur að öllum líkindum verið með böggum hildar þar til enn var hringt og var það enginn annar en sonurinn látni sem var á hinum endanum.

Það símtal barst þó ekki að handan heldur var um mistök gjörgæsludeildar sjúkrahússins í Kristiansand að ræða. Slysið var banaslys, þar lést þrítugur karlmaður á stolnu vélhjóli, hjóli sonarins fyrrnefnda, og lét starfsfólk gjörgæslunnar skráðan eiganda ökutækisins ráða til jarteikna um kennsl hins látna.

Verklagsreglur þverbrotnar

Símtalið hefði auk þess aldrei átt að koma frá sjúkrahúsinu. Þegar banaslys verða í umferðinni í Noregi er verklagið með þeim hætti að lögregla hefur samband við prest sem svo hefur samband við aðstandendur, starfsfólk sjúkrahúsa annast ekki slíkar tilkynningar.

„Við biðjumst innilega velvirðingar á þeirri byrði sem á fjölskylduna var lögð,“ segir Susanne Hernes, fagstjóri sjúkrahússins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, og játar að mistök hafi verið gerð þegar að því kom að bera kennsl á hinn látna. „Okkur þykir þetta ákaflega leitt og á sjúkrahúsinu er nú hafin rannsókn á atvikinu til að tryggja hvernig við getum hindrað að svona nokkuð komi fyrir aftur.

Slíkur málflutningur er reyndar kunnuglegur frá Sørlandet-sjúkrahúsinu þar sem ýmsar rósir hafa verið gerðar á öllum þremur aðalsjúkrahúsum þess, í Flekkefjord, Kristiansand og Arendal, en Margarita Jeanett Johansen, þrítugur hjúkrunarfræðingur í Arendal, ræddi við mbl.is í desember 2018 eftir að læknar þar höfðu skorið upp á henni rangan fót og afsakað sig með því að aðgerðin hefði verið á föstudegi.

Enn skemmra er um liðið frá ítarlegri umfjöllun norskra fjölmiðla og mbl.is um málefni bæklunarskurðlæknis frá Kasakstan sem bar ábyrgð á andláti þriggja sjúklinga og varanlegum örkumlum fjölda annarra í aðgerðum sem hann hefði aldrei átt að framkvæma án eftirlits þar sem réttindi hans voru frá Rússlandi og hann hafði ekki lokið því starfsnámi sem hann þarfnaðist í Noregi til að framkvæma bæklunarskurðaðgerðir einn síns liðs. Íslensk kona, Margrét Annie Guðbergsdóttir, sem er varanlega sködduð eftir aðgerð við úlnliðsbroti, sagði mbl.is sögu sína í febrúar í fyrra.

Árið 2015 voru enn fremur sagðar fréttir af lækni við sjúkrahúsið sem flutti afskorna líkamshluta með leynd heim til sín þar sem lögregla fann þá í frystikistu við húsleit, þegar ljóst þótti að maðkur væri í mysunni. Kvaðst sá hafa verið að standa vörð um rannsóknir sínar.

NRK

TV2

mbl.is