Kröftugar sprengingar í eldfjallinu

Nokkrar kröftugar sprengingar áttu sér stað í eldfjallinu Cumbre Vieja á eyjunni La Palma á Kanaríeyjum síðdegis í gær og í gærkvöldi. Að sögn vísindamanna hefur eldgosið nú breytt um takt og er sjáanlega meiri sprengivirkni í eldstöðinni en áður. 

Þetta hefur ollið því að öskustrókar frá eldgosinu hafa náð 6.000 metra hæð. Askan hefur náð til Santa Cruz á La Palma og norðurhluta Tenerife.

Canarian Weekly greinir frá.

María José Blanco, forstöðumaður jarðvísindastofnunar Spánar, segir að skjálftavirkni við Cumbre Vieja hafi minnkað en það þýðir ekki að dregið hafi úr gosinu. 

Þrjár sérstaklega kröftugar sprengingar fundust í byggð.
Þrjár sérstaklega kröftugar sprengingar fundust í byggð. AFP

Hraunið ferðast fjóra metra á klukkustund

Spænski eldfjallafræðingurinn Pedro Hernandez Perez segir að það muni taka marga daga fyrir hraunstrauminn úr eldfjallinu Cumbre Vieja á eyjunni La Palma á Kanaríeyjum að ná út í sjó. Þá er Perez jafnvel ekki viss um að hraunið muni komast svo langt yfir höfuð. 

Eldfjallið byrjaði að gjósa sl. sunnudag og er ljóst að það er enginn „ræfill“. 320 byggingar hafa eyðilagst vegna þess og á annað hundrað hektara lands. Útlit er fyrir að eldgosið muni valda enn meiri usla.

Vísindamenn hafa hvatt fólk til þess að forðast svæðið í kringum eldgosið. 

„Það mun taka hraunið marga daga að ná sjónum. Í gær ferðaðist hraunið fjóra metra á klukkustund. Ef sjórinn er um kílómetra frá gosinu getum við gert okkur í hugarlund að þetta muni taka langan tíma,“ segir Perez. 

„Ef hraunið nær til sjávar af bjargbrún er hætta á því að hraunið brjóti stóran part af brúninni.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert