Lögreglumaður í Kolbotn-harmleik

Kolbotn í Nordre Follo í Viken-fylki í Noregi þar sem …
Kolbotn í Nordre Follo í Viken-fylki í Noregi þar sem harmleikur átti sér stað aðfaranótt miðvikudags, grunur leikur á að lögreglumaður á fimmtugsaldri hafi myrt eiginkonu sína með eggvopni áður en hann svipti sig lífi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Limages

Lögreglumaður á fimmtugsaldri, sem starfað hafði við nokkur lögregluembætti í Noregi og var starfandi við norska lögregluháskólann, liggur undir grun um að hafa ráðið eiginkonu sinni bana með eggvopni áður en hann svipti sig lífi, en fólkið fannst látið í íbúð í Kolbotn í Nordre Follo í fylkinu Viken, steinsnar frá Ósló, aðfaranótt miðvikudags.

Þetta gefa niðurstöður bráðabirgðakrufningar, sem bárust í dag, til kynna, að sögn Ninu Marthinsen, ákærufulltrúa lögreglunnar í austurumdæminu.

„Þetta er mjög sérstakt mál og ákaflega þungbært og sárt fyrir alla hlutaðeigandi,“ segir Marthinsen við norska ríkisútvarpið NRK, en fjöldi fólks hefur lagt leið sína að íbúðinni, sem fólkið fannst látið í, og lagt þar blóm eftir að greint var frá voðaatburðinum.

Hjónin áttu börn undir lögaldri og njóta þau nú þeirrar aðstoðar sem unnt er að veita á ögurstundu. „Börnin eru í djúpri sorg og áfalli vegna þess sem gerðist, hlúð er að þeim á allan hátt,“ segir Marit Falkanger, réttargæslulögmaður barnanna, en Falkanger hefur verið í sambandi við fjölskylduteymi lögreglunnar og ættingja barnanna.

Hugað að starfsfólki Lögregluháskólans

Runar Kvernen, upplýsingafulltrúi norska lögregluháskólans, þar sem hinn látni starfaði, segir í tölvupósti til NRK að málið sé skelfilegt. „Hugur okkar er auðvitað hjá fjölskyldu, vinum og samstarfsfólki sem dauðsföllin snerta. Starfsfólk Lögregluháskólans hlýtur nú aðhlynningu samkvæmt þeim reglum sem við fylgjum,“ skrifar Kvernen.

Maðurinn sem lést hafði meðal annars starfað við Økokrim, efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar, og rannsóknardeild lögreglunnar í innri málefnum, Spesialenheten for politisaker, og átti sér langan feril.

Marthinsen ákærufulltrúi kveður rannsókn málsins nú munu halda áfram af fullum þunga. „Við eigum eftir að yfirheyra vitni og aðra, við munum skapa okkur yfirsýn og leggja okkur eftir þeim upplýsingum sem varpað geta ljósi á málið,“ segir ákærufulltrúinn.

NRK

VG

TV2

ABC Nyheter

mbl.is