Óttast útrýmingu mannkynsins

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York.
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York. AFP

Tvö hundruð leiðtogar kalla eftir því að stofnuð verði sérstök skrifstofa hjá Sameinuðu þjóðunum, til að samræma alþjóðlegar rannsóknir og hafi það að markmiði að hindra útrýmingu mannkyns.

The Millennium Project, World Futures Studies Federation og Association of Professional Futurists benda á að mannkyninu sé verulega ógnað vegna veikingar á lofthjúpi jarðar, súrnunar sjávar vegna loftslagsbreytinga og stjórnlausrar þróunar á nanótækni og gervigreind.

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna. AFP

Vilja sérstaka skrifstofu um ógnir að mannkyninu

Í opnu bréfi til aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, hvetja internetbrautryðjandinn Vint Cerf, Nóbelsverðlaunahafinn Oscar Arias og aðrir leiðtogar á sviði tækni, viðskipta, stjórnmála, umhverfis- og loftslagsmála um allan heim, til þess að sett verði á stofn sérstök skrifstofa innan Sameinuðu þjóðanna sem fjalli sérstaklega um þær ógnir sem steðja að mannkyninu.

Tilgangur slíkrar skrifstofu væri að samræma alþjóðlegar rannsóknir á langtíma áhrifum slíkra ógna og varnir gegn þeim.

Í bréfinu leggur Maria João Rodrigues, höfundur Lissabon-áætlunar ESB, til að skrifstofa Sameinuðu þjóðanna geri fýsileikakönnun á stofnun slíkrar skrifstofu.

„Bráðakrísur virðast alltaf taka athygli frá langtíma áhyggjum um framtíð mannkyns. Því þurfum við sérstaka skrifstofu innan Sameinuðu þjóðanna sem einblínir á það sem gæti útrýmt okkur og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir það,“ sagði Jerome Glenn, forstjóri The Millennium Project.

Innan Sameinuðu þjóðanna eru nú þegar stofnanir sem taka á mörgum af áskorunum nútímans - svo sem minnkandi ferskvatni í heiminum, samþjöppun auðs og þjóðernistengdu ofbeldi – en eins alvarlegir og þessi þættir eru þá ógna þeir ekki tilvist mannkyns.

Eftirfarandi tíu atriði eru nefnd sem dæmi um langtíma ógnir:

• Veiking á lofthjúpi (segulsviði) jarðar sem verndar okkur fyrir banvænni geislun sólar

• Mikil losun vetnissúlfats vegna súrnun sjávar, sem stafar af hlýnun jarðar

• Skaðleg nanótækni (þar á meðal svonefnt „gray goo“ vandamál)

• Stjórnlaus þróun gervigreindar

• Einstaklingur, sem starfar einn og óháður, sem gæti meðal annars leitt til þróunar og notkunar gereyðingarvopna, s.s. efnavopna

• Vaxandi ógn vegna kjarnorkustríðs

• Stjórnlausir og alvarlegir heimsfaraldrar

• Slys við hröðun öreinda (e. A particle accelerator accident)

• Sprengingar vegna gamma-geisla frá sólu (e. Solar gamma-ray bursts)

• Árekstur smástirna

„Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna um stefnumótun og tilvistarógnir gæti greint, fylgst með, séð fyrir og samhæft stefnumótandi rannsóknir á heimsvísu til að koma í veg fyrir þessar ógnir,“ sagðiHéctor Casanueva, fyrrverandi sendiherra Chile hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf.

Hugmyndin kom á degi framtíðarinnar

Hugmyndin að nýrri skrifstofu Sameinuðu þjóðanna kom fram á degi framtíðar 1. mars 2021, sem er haldinn árlega. Um er að ræða alþjóðlega netráðstefnu nærri þúsund sérfræðinga frá 65 löndum.Alþjóðavettvangur framtíðarfræðinga, Millennium Project, stendur fyrir umræddum degi.

Lagt var til að ályktun um framangreint ákall yrði lögð fyrir á næsta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður í september 2021. Það myndi veita skrifstofu Sameinuðu þjóðanna umboð til að gera fýsileikakönnun á fyrirhugaðri skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um langtíma ógnir.

mbl.is