Kínverjar sleppa tveimur Kanadamönnum

Michael Spavor og Michael Kovrig.
Michael Spavor og Michael Kovrig. AFP

Kínversk yfirvöld hafa sleppt tveimur kanadískum ríkisborgurum sem voru í haldi í Kína. Mennirnir, Micheal Spavor og Michael Kovrig, eru væntanlegir með flugi til Kanada. 

Frá þessu hefur Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, greint. 

Spavor og Kovrig voru sakaðir um njósnir árið 2018. Þetta gerðist skömmu eftir að kanadíska lögreglan handtók Meng Wanzhou, sem er einn af stjórnendum Huawei-tæknifyrirtækisins í Kína, eftir að bandarísk stjórnvöld höfðu gefið út handtökuskipun á hendur henni. 

AFP

Meng yfirgaf Kanada í gær eftir að samkomulag náðist við bandaríska saksóknara, að því er segir í frétt BBC

Málið hefur reynt mjög á pólitísk samskipti ríkjanna. Kínverjar hafa m.a. verið sakaðir um að handtaka Kanadamennina í þeim eina tilgangi að bregðast við handtöku Meng. Mennirnir hafi þar með einungis verið pólitísk skiptimynt til að fá Meng lausa úr haldi. 

Kínversk stjórnvöld hafna þessum ásökunum. 

Spavor og Kovrig hafa ávallt haldið fram sakleysi sínu. 

Trudeau boðaði til blaðamannafundar þar sem hann sagði að mennirnir hefðu þurft að ganga í gegnum mikla þolraun. Það væru hins vegar góð tíðindi að þeir væru nú á heimleið til að hitta fjölskyldur sínar. 

„Undanfarna 1.000 daga hafa þeir sýnt styrk sinn, þrautseigju, seiglu og hugrekki.“

mbl.is