Sonur Bolsonaros með veiruna

Eduardo Bolsonaro.
Eduardo Bolsonaro. AFP

Eduardo Bolsonaro, sonur Jairs Bolsonaros forseta Brasilíu, tilkynnti í gær að hann hefði greinst með kórónuveiruna. 

Eduardo er þar með þriðji fulltrúi sendinefndar Brasilíu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York til að greinast með veiruna. 

Eduardo sagði á Twitter að sér liði vel og tæki lyf án þess að tilgreina nákvæmlega hvers lags lyf hann væri að innbyrða. 

Hann sagði veikindi sín sönnunargögn í herferð sinni gegn bólusetningarvottorðum, en vottorðin voru nýlega kynnt til sögunnar í nokkrum brasilískum borgum.

„Við vitum að bóluefnin voru framleidd hraðar en oft áður. Ég fékk fyrsta skammt af Pfizer-bóluefninu en ég fékk Covid,“ sagði hann og bætti við:

„Þýðir þetta að bóluefnin séu gagnslaus? Nei. En ég trúi því að þetta séu enn ein rökin gegn bólusetningarvottorðinu.“

mbl.is