Stefnan gegn Andrési verður tekin fyrir

Andrés Bretaprins.
Andrés Bretaprins. AFP

Lögmenn Andrésar Bretaprins í Bandaríkjunum hafa samþykkt að honum hafi verið stefnt fyrir dóm, en prinsinn er sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn Virginu Giuffre árið 2001.

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir deilur um hvort Andrési hafi verið tilkynnt með formlegum hætti um málið gegnum honum. 

Giuffre, sem er 38 ára gömul, heldur því fram að Andrés hafi brotið gegn sér á þremur stöðum, þar á meðal í New York-borg í Bandaríkjunum. 

Andrés, sem er 61 árs gamall, er næstelsti sonur Elísabetar Bretlandsdrottningar. Hann hefur ítrekað hafnað þessum ásökunum.

Fram kemur í málsskjölum að lögmenn Andrésar og Giuffre hafi rætt saman 21. september og þar hafi verið ákveðið að framlengja frest sem prinsinn hefur til að bregðast við kærunni. Breska ríkisútvarpið segir að greinargerð verði að liggja fyrir dómstóli í New York í síðasta lagi 29. október. 

Í síðustu viku kvað dómarinn upp þann úrskurð að hægt væri að koma stefnunni í hendur lögmanna Andrésar, en það hefur reynst þrautin þyngri að koma henni beint í hendur Bretaprinsins.

mbl.is