Lögleiða hjónabönd samkynhneigðra

Fjöldi fólks fagnaði því þegar hjónabönd samkynhneigðra voru lögleidd í …
Fjöldi fólks fagnaði því þegar hjónabönd samkynhneigðra voru lögleidd í Sviss í dag. AFP

Sögulegt skref í átt að auknum réttindum samkynhneigðra var tekið í Sviss í dag þegar hjónabönd samkynhneigðra voru lögleidd. Kosning um lögleiðinguna fór fram í dag og voru nærri tveir þriðju kjósenda hlynntir lögleiðingunni.

„Þetta er sögulegur dagur fyrir Sviss og sögulegur dagur þegar kemur að jafnrétti samkynhneigðra. Einnig er þessi dagur mikilvægur fyrir allt LGBT samfélagið,“ segir Jan Mueller, talsmaður „Já“-herferðarinnar í Sviss í samtali við fréttastofu AFP.

Lögin taka gildi á næsta ári

Með þessu varð Sviss þrítugasta landið í heiminum til þess að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra og með síðustu löndunum í Evrópu. Hollendingar voru fyrstir til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra árið 2001.

Nýju lögin munu þó ekki taka gildi fyrr en 1. júlí 2022, að sögn Karin Keller-Sutter dómsmálaráðherra Sviss.

„Þeir sem elska hvorn annann og vilja giftast munu geta gert það, hvort sem um er að ræða tvo karla, tvær konur eða karl og konu. Ríkið þarf ekki að segja borgurum sínum hvernig þeir eiga að hafa lífi sínu,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert