Sveðjur og slagsmál við enduropnun

Lögregla ræðir við vitni eftir að henni og dyravörðum hafði …
Lögregla ræðir við vitni eftir að henni og dyravörðum hafði með samstilltu átaki tekist að leysa upp hópslagsmál um tíu manns á bryggjunni í Tønsberg, helsta veitinga- og öldurhúsasvæði miðaldabæjarins í Vestfold og Telemark-fylki. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Engum ofsögum er sagt að Norðmenn hafi slett rækilega úr klaufunum í gær, en kl. 16:00 að norskum tíma laugardaginn 25. september rann sú sögulega stund upp að síðustu hömlum vegna kórónuveirufaraldursins var aflétt í Noregi, þó með þeim fyrirvara Bent Høie heilbrigðisráðherra að fólk viðhefði eðlilega gát og gætti að hreinlæti.

Hrein skálmöld ríkti í höfuðstaðnum Ósló þar sem lögregla skráði 50 hópslagsmál í dagbók sína á örfáum klukkustundum og 190 verkefni sem mest snerust um ölvun og óspektir á almannafæri og bárust tilkynningar um lögbrot, eignaspjöll, slagsmál og hömlulausa drykkju frá flestum landshornum.

„Lögreglan í Ósló hafði umtalsvert meira að gera í nótt en tíðkaðist í allt sumar. Fjöldi fólks var á götunum frá því síðdegis á laugardag og langt fram á nótt,“ sagði Rune Hekkelstrand varðstjóri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í morgun.

Hópslagsmál í Tønsberg

Maður var stunginn í fótinn á Øvre Slottsgate og annar hlaut alvarlega höfuðáverka í líkamsárás við Stortorget án þess að lögreglu tækist að hafa hendur í hári árásarmanns eða -manna og bætir Hekkelstrand varðstjóri því við að nokkur fjöldi fólks hafi verið handtekinn með hnífa, sveðjur og önnur vopn.

Á bryggjunni í Tønsberg, helsta veitinga- og öldurhúsasvæði þessa smábæjar um 100 kílómetra suður af Ósló, svall ungmennum móður og brutust út hópslagsmál þeirra í millum sem dyraverðir áttu enga möguleika á að knýja til kyrrðar, enda yfir tíu þátttakendur sem drógu hvergi af sér við högg og spörk.

Stilla úr myndskeiði sem vegfarandi sendi norska ríkisútvarpinu NRK af …
Stilla úr myndskeiði sem vegfarandi sendi norska ríkisútvarpinu NRK af átökunum í Tønsberg. Fregnir af ölvun, handtökum og líkamsárásum um gervallan Noreg hafa streymt um fjölmiðla í dag. Skjáskot/vegfarandi

Fréttamaður NRK var sjónarvottur að atburðinum (og reyndar einnig sá sem hér ritar) og kvað hann dyraverði hafa lagt eitt ungmennanna í jörðina áður en lögregla kom á staðinn, stillti til friðar og handtók, að sögn Tore Juven varðstjóra, einn pilt sem gista mátti bak við rimlana í nótt.

Leið yfir fjölda fólks

Þá voru tólf handteknir í fylkinu Agder í Suður-Noregi fyrir óspektir og ölvun í mörgum bæjum fylkisins og frá Skien bárust einnig fregnir af hópslagsmálum. Í Bergen, Stavanger og Þrándheimi mynduðust langar biðraðir við dyr öldurhúsa er landinn fagnaði eðlilegri þjóðfélagsskipan eftir 18 mánuði af mismiklum lokunum, á tímabili í fyrra og svo aftur í vor mjög miklum. Slík urðu þrengslin í helstu skemmtistaðagötu síðastnefndu borgarinnar að fjöldi fólks féll í yfirlið, samkvæmt Solfrid Lægdheim, varðstjóra í lögreglu þar. Alls voru 13 handteknir í fylkinu Þrændalögum í gær og nótt.

„Ég get alveg staðfest að þetta er á pari við 16. maí [kvöldið fyrir þjóðhátíðardaginn] eða gamlárskvöld,“ segir Tatjana Knappen, varðstjóri í vesturumdæmi lögreglunnar, við NRK, „sem betur fór komumst við gegnum nóttina án alvarlegra uppákoma en ölvunin var gríðarleg og þá sérstaklega í miðbænum í Bergen,“ segir Knappen, en þar slógust þó fimm eða sex manns í hópslagsmálum og má einn þeirra búast við kæru fyrir hótanir og ofbeldi í garð lögregluþjóns.

„Þetta er æðislegt“

Abid Raja, menningarmálaráðherra og persónulegur vinur Tom Cruise eftir síðustu Mission Impossible-tökur í Noregi, lék á als oddi þar sem hann var staddur á barnum Kulturhuset í Ósló og fór að sögn NRK mikinn á dansgólfinu þar. „Þetta er æðislegt. Þessa hefur Noregur beðið í 18 mánuði,“ sagði ráðherra, „við erum tilbúin að stíga dans og fá menninguna og hversdagslífið aftur. Ég hvet alla til að fara í leikhús, bíó, á tónleika og út að skemmta sér og notfæra sér það sem er á boðstólum,“ sagði hann enn fremur.

NRK

VG

ABC Nyheter

mbl.is