Egg hæfði Macron

Emmanuel Macron í Lyon í dag.
Emmanuel Macron í Lyon í dag. AFP

Egg hæfði franska forsetann Emmanuel Macron þar sem hann var að heimsækja veitinga- og gististaðaráðstefnu í borginni Lyon í dag.

Eggið hafði viðkomu í öxl forsetans en skoppaði af henni án þess að brotna.

„Leyfið honum að koma“

Sá sem kastaði egginu var fljótt yfirbugaður og færður á brott. Macron sagðist sjálfur myndu ræða við hann síðar.

„Ef hann hefur eitthvað að segja mér, leyfið honum að koma,“ sagði forsetinn. „Ég fer að hitta hann seinna.“

Kastið var dökkur blettur á annars góðum viðtökum sem forsetinn fékk á sýningunni í morgun, ekki síst eftir að hann hafði tilkynnt að þjórfjárgreiðslur með greiðslukortum yrðu ekki lengur skattlagðar.

Kunnugur eggjum

Hættan á að fá egg í höfuðið er ekki ókunn frönskum stjórnmálamönnum og þar er Macron engin undantekning.

Í kosningabaráttu sinni árið 2017 sprakk egg á höfði hans á landbúnaðarsýningu í París.

Þá er ekki langt síðan hann fékk vænan löðrung þegar hann var að heilsa fólki í borginni Valence í júní.

mbl.is