Morðum fjölgaði verulega í Bandaríkjunum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Gríðarleg fjölgun morða varð í Bandaríkjunum á milli áranna 2019 og 2020. Í sumum borgum var árið 2020 skráður mestur fjöldi morða frá því að skráningar á glæpum hófust. 

Samkvæmt nýrri skýrslu bandarísku alríkislögreglunnar fjölgaði morðum um 4.901 árið 2020, samanborið við árið á undan. Fjölgun morða hefur ekki verið meiri síðan skráning glæpa hófst árið 1960. 

Það sem af er ári 2021 hefur tíðni morða haldist há, en hefur þó farið dvínandi síðari hluta ársins. 

Alls voru 21.500 einstaklingar myrtir í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir mikla fjölgun á milli ára er heildarfjöldi morða þó töluvert minni en hann var í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. 

Í skýrslu alríkislögreglunnar eru teknar saman upplýsingar frá tæplega 16 þúsund lögregluumdæmum um Bandaríkin. Fram kemur í skýrslunni að morð voru árið 2020 sömuleiðis útbreiddari en áður og skrásett á öllum svæðum Bandaríkjanna en voru ekki takmörkuð við stærri borgir líkt og oft áður. 

Um 77% skrásettra borða árið 2020 voru framin með skotvopni, en fyrir áratug voru slík morð 67% af heildarfjöldanum. New York Times greinir frá því að sala á skotvopnum stórjókst í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Samhliða þessu fjölgaði verulega skotárásum þar sem enginn lést. 

mbl.is