Bandaríkin hafa tæpar þrjár vikur

Seðlabankastjórinn Jerome Powell (t.v.) og fjármálaráðherrann Janet Yellen (t.h.) komu …
Seðlabankastjórinn Jerome Powell (t.v.) og fjármálaráðherrann Janet Yellen (t.h.) komu fyrir bankamálanefndina. AFP

Ríkissjóð Bandaríkjanna mun að líkindum þverra möguleika til að halda áfram að fjármagna ríkisstjórnina þann 18. október. Lausafé hans mun í kjölfarið ganga til þurrðar nema þingið samþykki að hækka leyfilegt skuldaþak ríkissjóðs.

Fjármálaráðherrann Janet Yellen varaði við þessu í dag.

Að 18. október liðnum yrði „ríkissjóður skilinn eftir með mjög takmörkuð úrræði sem fljótt yrðu uppurin“.

„Það er óljóst hvort við gætum haldið áfram að standa undir öllum skuldbindingum þjóðarinnar eftir þá dagsetningu,“ segir Yellen í bréfi til leiðtoga flokkanna á Bandaríkjaþingi.

Bandaríkin muni ekki geta staðið í skilum

Repúblikanar í öldungadeildinni hafa þráast við að samþykkja hækkun eða afléttingu skuldaþaksins, þrátt fyrir að hafa sjálfir beitt sér fyrir slíku á meðan flokksbróðir þeirra Donald Trump gegndi embætti forseta.

Í gær komu þeir í veg fyrir tilraun demókrata til að samþykkja 14 mánaða afléttingu þaksins ásamt bráðabirgðafjárlögum.

Yellen endurtók ofangreint ákall sitt þegar hún mætti fyrir bankamálanefnd öldungadeildarinnar.

„Það er nauðsynlegt að þingið leysi fljótt úr skuldaþakinu. Ef það gerir það ekki, þá munu Bandaríkin ekki geta staðið í skilum í fyrsta sinn í sögunni,“ tjáði Yellen nefndinni.

Verði ekkert að gert stefnir í að ríkisstjórnin muni hvorki geta borgað laun alríkisstarfsmanna, greitt eftirlaun til eldri borgara, né staðið undir skuldum sínum.

mbl.is