Jadot forsetaefni Græningja

Yannick Jadot verður forsetaframbjóðandi Græningja í Frakklandi á næsta ári.
Yannick Jadot verður forsetaframbjóðandi Græningja í Frakklandi á næsta ári. AFP

Græningjaflokkurinn í Frakklandi tilnefndi í dag hinn fimmtíu og fjögurra ára gamla Yannick Jadot sem forsetaefni sitt í komandi forsetakosningum þar í landi á næsta ári.

Jadot sem er Evrópuþingmaður bætist því við flóru frambjóðenda á vinstri væng stjórnmálanna þar í landi sem sækjast eftir forsetaembættinu en Emmanuel Macron klárar sitt fyrsta kjörtímabil á næsta ári.

Ekki náð árangri á landsvísu

Þrátt fyrir góðan árangur í sveitarstjórnarkosningum í Frakklandi í fyrra hafa Græningjar ekki enn náð góðum árangri í landsmálunum. En flokkurinn náði til að mynda meirihluta í Bordaux og Lyon í fyrra.

Jadot er í raun eini stjórnmálamaður græningja sem telst þekktur á landsvísu og hefur hann lofað skilvirkri lausnamiðaðri nálgun í umhverfismálum.

mbl.is